Erlent

Sagði „Æi, fjandinn hafi það“ og skaut 95 ára konu með rafbyssu

Samúel Karl Ólason skrifar
Clare Nowland dó nokkrum dögum eftir atvikið.
Clare Nowland dó nokkrum dögum eftir atvikið.

Saksóknarar í Ástralíu segja lögregluþjóna sem beittu rafbyssu gegn 95 ára gamalli konu með elliglöp hafa beitt óhóflega miklu valdi. Konan, sem hét Clare Nowland, féll í gólfið og höfuðkúpubrotnaði þegar hún var beitt rafbyssunni. Þá dó hún nokkrum dögum síðar.

Þegar hún var skotin með rafbyssunni var Nowland sögð nálgast tvo lögregluþjóna hægt með göngugrind og með hníf í hendi. Lögregluþjónarnir munu hafa skipað henni fjórum sinnum að leggja frá sér hnífinn.

„Æi, fjandinn hafi það,“ mun lögregluþjónninn Kristian White hafa sagt, rétt áður en hann skaut hana með rafbyssunni, samkvæmt frétt ástralska ríkisútvarpsins. Þá mun Nowland hafa staðið kyrr en með hnífinn í hendinni og á lofti.

White hefur verið ákærður en hefur ekki enn lýst yfir sekt eða sakleysi. Hann mun þurfa að mæta fyrir dómara í september.

Lögregluþjónar voru kallaðir til að dvalarheimilinu þar sem Nowland bjó eftir að hún sást ganga um með tvo hnífa. Hún neitaði að leggja þá frá sér þegar starfsmenn dvalarheimilisins fóru fram á það. Seinna meir sást hún með hnífana inn í herbergi annars íbúa dvalarheimilisins.

Starfsmenn náðu ekki í fjölskyldu hennar og hringdu þá eftir aðstoð. Þeir sögðust hafa viljað fá sjúkraflutningamenn til að deyfa hana. Þá reyndi hún að kasta einum hnífanna í starfsmann.

Þegar lögregluþjóna og sjúkraflutningamenn bar að garði, gekk Nowland í áttina að þeim „mjög hægt“, eins og segir í skýrslu saksóknara, og með hinn hnífinn í hendinni. Hún beindi hnífnum að hinum lögregluþjóninum og þá tók White upp rafbyssuna.

Hann sagði Nowland að stoppa og leggja frá sér hnífinn en það gerði hún ekki.

„Æi, fjandinn hafi það (na, bugger it),“ sagði White þá og skaut Nowland sem féll í gólfið. 

Fjölskylda Nowland segir innihald áðurnefndrar skýrslu saksóknara vera sjokkerandi og hafa þau beðið um næði á meðan þau melta þessar nýjustu vendingar.


Tengdar fréttir

Aldraða konan sem var skotin með rafbyssu er látin

Eldri áströlsk kona sem skotin var með rafbyssu á dögunum er látin. Lögregluþjónn hefur verið ákærður fyrir að skjóta hina 95 ára gömlu Clare Nowland með rafbyssu þegar hún nálgaðist hann hægt á göngugrind en með hníf í hendi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×