Fótbolti

Brasilíska ríkis­stjórnin breytir vinnu­tímum vegna HM í fót­bolta

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Geyse da Silva Ferreira er ein af stjörnum Brasilíu.
Geyse da Silva Ferreira er ein af stjörnum Brasilíu. Catherine Ivill/Getty Images

Opinbert starfsfólk í Brasilíu þarf ekki að hafa áhyggjur af því að mæta seint til vinnu þó það horfi á leiki kvennalandsliðsins á HM frá upphafi til enda. Hefðbundnum vinnudegi verður breytt svo fólk geti fylgst með landsliðinu.

HM kvenna í knattspyrnu í Ástralíu og Nýja-Sjálandi hófst í dag. Það er ekki aðeins Ísland sem er að glíma við það að leikirnir séu á óhefðbundnum tíma enda leiknir hinum megin á hnettinum. Brasilía er einnig að glíma við óhefðbundna tíma og til að koma til móts við það starfsfólk sem vill horfa á leikina hefur ríkisstjórn landsins ákveðið að breyta hefðbundnum vinnudegi hjá opinberu starfsfólki.

Brasilía er í F-riðli ásamt Frakklandi, Jamaíka og Panama. Leikir liðsins að íslenskum tíma eru klukkan 10.00 og 11.00 en þeir eru heldur fyrr í Brasilíu. Því hefur verið ákveðið að opinberir starfsmenn þurfi ekki að mæta til vinnu fyrr en í síðasta lagi tveimur tímum eftir að leik lýkur.

„Þegar leikirnir byrja 07.30 þá þarf fólk ekki að mæta fyrr en 11.00. Þegar leikirnir byrja 08.00 þá þarf fólk ekki að mæta fyrr en í hádeginu,“ segir í frétt Reuters um málið.

Brasilía hefur átta sinnum unnið Suður-Ameríkukeppnina en þeirra besti árangur á HM kom árið 2007 þegar liðið tapaði fyrir Þýskalandi í úrslitum.

Brasilía hefur leik á HM á mánudaginn kemur, 24. júlí, gegn Panama.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×