Erlent

Ljón leikur lausum hala í Berlín

Samúel Karl Ólason skrifar
Myndband náðist af ljóninu í gærkvöldi og vitni segjast hafa séð það éta villisvín.
Myndband náðist af ljóninu í gærkvöldi og vitni segjast hafa séð það éta villisvín. Getty

Lögreglan Í Berlín hefur beðið íbúa í úthverfum borgarinnar um að halda sig heima eftir að stórt kattardýr, sem talið er vera ljónynja, sást á svæðinu í gærkvöldi. Þá eru gæludýraeigendur beðnir um að halda dýrum sínum innandyra.

Myndband sem ku hafa náðst af dýrinu hefur verið í dreifingu á netinu.

Í frétt Bild segir að mikill viðbúnaður sé á svæðinu en úthverfin eru Zehlendorf, Steglitz, Marienfelde, Neukölln og Tempelhof í suðurhluta Berlínar. Sjónarvottur segist hafa séð ljónið éta villisvín en lögreglan telur að myndband af dýrinu sé raunverulegt.

Notast er við þyrlur með hitamyndavélar til að leita að dýrinu og þá eru veiðimenn vopnaðir deyfibyssum og dýralæknar tilbúnir til að fanga það. Vopnaðir lögregluþjónar eru einnig á svæðinu.

Lögregluþjónar hafa talað við aðila þar sem talið er að ljón gætu hafa verið geymd en enginn virðist sakna ljónsins. Samkvæmt Bild er ekki vitað hvaðan ljónið kemur.

Samkvæmt frétt Berliner Zeitung er þó talið nokkuð ljóst að ljónið sé ekki villt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×