Erlent

Auka eftir­lit á Hormuz-sundi vegna af­skipta Írana af skipa­um­ferð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Herskipið USS Thomas Hudner var vígt árið 2018.
Herskipið USS Thomas Hudner var vígt árið 2018. Getty/Boston Globe/David L. Ryan

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa ákveðið að senda herskip og fleiri herþotur til Hormuz-sunds og Ómanflóa til að fæla Íran frá því að ráðast gegn skipum í eigu erlendra fyrirtækja.

Ákvörðunin var tekin í kjölfar tilraunar íranska hersins til að ná á sitt vald tveimur olíuflutningaskipum á Hormuz-sundi fyrr í þessum mánuði en skotið var á annað skipið.

Hermálayfirvöld vestanhafs sögðu í gær að tundurspillirinn USS Thomas Hudner yrði sendur á svæðið auk nokkurra F-35 herþota. Hudner hefur verið á Rauðahafi en breytingunni er ætlað að auka sýnileika Bandaríkjahers á Hormuz-sundi og Ómanflóa.

Sabrina Singh, talskona Pentagon, sagði óljóst hversu lengi herskipið yrði á svæðinu en greint hefur verið frá því að í báðum tilvikum þegar ráðist var gegn olíuflutningaskipunum var hætt við þegar herskipið USS McFaul kom að.

Það skip verður áfram við eftirlit á Ómanflóa.

Bandarísk yfirvöld segja Íran hafa lagt hald á að minnsta kosti fimm flutningaskip á síðustu tveimur árum og áreitt áhafnir enn fleiri skipa. Mörg atvikin áttu sér stað á Hormuz-sundi en um 20 prósent allrar hráolíu sem framleidd er í heiminum fer um sundið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×