Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Valur 2-0 | Stjarnan í efri hlutann en Valur að missa af toppliðinu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Stjarnan vann góðan sigur í kvöld.
Stjarnan vann góðan sigur í kvöld. Vísir/Diego

Stjarnan vann nokkuð öruggan 2-0 sigur er liðið tók á móti Val á Samsung-vellinum í Bestu-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Stjörnumenn stukku upp um þrjú sæti með sigrinum, en Valsmönnum mistókst að minnka bilið í topplið Víkings.

Heimamenn voru sterkari aðilinn í upphafi leiks og liðið skapaði sér nóg af færum til að komast yfir. Þeirra besta færi í fyrri hálfleik kom eftir aðeins tæplega tíu mínútna leik þegar Eggert Aron Guðmundsson átti lúmskt skot fyrir utan teig sem hafnaði í stönginni. Þaðan barst boltinn svo út í teig þar sem Emil Atlason tók frákastið, en náði ekki að stýra skoti sínu á markið og Valsmenn sluppu því með skrekkinn.

Þrátt fyrir að vera á afturfótunum í fyrri hálfleik tókst Valsmönnum þó nokkrum sinnum að koma sér í álitlegar stöður. Adam Ægir Pálsson sýndi til að mynda flotta takta þegar hann tók við boltanum, klobbaði einn varnarmann Stjörnunnar og reyndi að finna fjærhornið, en Árni Snær Ólafsson var vandanum vaxinn í marki Stjörnunnar.

Vísir/Diego

Heimamönnum tókst svo loksins að brjóta ísinn á 27. mínútu þegar liðið tók stutta hornspyrnu sem endaði með því að Daníel Laxdal renndi boltanum út fyrir teig þar sem Sindri Þór Ingimarsson mætti á ferðinni og lét vaða. Boltinn stefndi í fjærhornið, en hafði líklega viðkomu í Guðmundi Kristjánssyni og þaðan fór hann í netið nær, 1-0.

Þetta reyndist eina mark fyrri hálfleiksins og heimamenn gengu því með 1-0 forystu inn til búningsherbergja.

Vísir/Diego

Síðari hálfleikur var svo heldur rólegri en sá fyrri ef tekið er mið af marktækifærum. Valsmenn reyndu að færa sig framar á völlinn í leit að jöfnunarmarki, en vörn Stjörnumann stóð vel og Valsmönnum gekk illa að finna leiðir í gegn.

Það voru svo heimamenn sem urðu fyrri til að bæta við heldur en Valsmenn að jafna þegar Eggert Aron Guðmundsson nýtti sér klaufagang í vörn Valsmanna og tók við skalla frá Elfari Frey Helgasyni sem reyndi að skalla boltann út úr vörninni. Eggert þakkaði pent fyrir sig, kom sér inn að miðju og dó boltann til baka í nærhornið þar sem Frederik Schram náði ekki til hans.

Vísir/Diego

Gestirnir reyndu eins og þeir gátu að brjóta vörn Stjörnumanna á bak aftur það sem eftir lifði leiks, en ekkert gekk. Stjörnumenn gátu því siglt heim þremur stigum og liðið stekkur upp um þrjú sæti með sigrinum.

Stjörnumenn sitja nú í sjötta sæti deildarinnar með 17 stig eftir 14 leiki, en Valsmenn eru enn sex stigum á eftir toppliði Víkings í öðru sæti deildarinnar.

Af hverju vann Stjarnan?

Stjörnumenn voru mun hættulegri frá fyrstu mínútu og nýttu færin sem þeir sköpuðu sér vel. Vörn þeirra stóð einnig vel og þar af leiðandi gekk sóknarleikur Valsmanna misvel. heilt yfir voru Stjörnumenn sterkari aðilinn og sköpuðu sér fleiri færi og því fór sem fór.

Hverjir stóðu upp úr?

Eggert Aron Guðmundsson átti virkilega góðan leik fyrir Stjörnumenn. Hann skoraði seinna mark liðsins og oft og tíðum skapaðist hætta í kringum hann þegar hann fékk boltann á vallarhelmingi gestanna. 

Vísir/Diego

Þá er einnig hægt að hrósa Stjörnuliðinu í heild fyrir sína frammistöðu í kvöld, því liðið gaf Valsmönnum fá færi á sér og sigur Stjörnunnar var nokkuð verðskuldaður.

Hvað gekk illa?

Valsmönnum gekk illa að ráða við ákefðina í leik Stjönumanna sem sýndu virkilega öfluga frammistöðu í kvöld, þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Gestunum tókst þó að skapa sér nokkur færi í leiknum og á öðrum degi hefðu úrslitin getað orðið allt önnur.

Hvað gerist næst?

Stjarnan sækir HK heim næstkomandi sunnudag klukkan 19:15 og á sama tíma taka Valsmenn á móti Fram í Reykjavíkurslag.

Jökull: Þessi var bara helvíti góður

Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, var eðlilega kátur í leikslok.Vísir/Diego

„Þessi var bara helvíti góður,“ sagði Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjönunnar, í leikslok.

„Fyrsta sem maður hugsar er að maður getur ekki beðið eftir að fá þetta lið inn í Kórinn í næsta leik.“

Stjörnumenn voru án Ísaks Andra Sigurgeirssonar, sem hefur verið þeirra besti maður í sumar, en hann er á leið frá liðinu. Jökull talaði þó um það fyrir leik að það myndi ekki hafa áhrif á hans menn og sú varð raunin.

„Ísak er búinn að vera frábær fyrir okkur og búinn að bæta sig mikið. Ef allt gengur upp þá fer hann sem einn besti, ef ekki bara besti, leikmaður deildarinnar. En hann hefur líka notið góðs af því að vera í góðu liði og sterkri liðsheild. Þegar það er svoleiðis þá kemur næsti maður og við höldum áfram.“

Stjörnumenn höfðu ekki spilað leik í um þrjár vikur fyrir leik kvöldsins, en þrátt fyrir það virtust menn í toppformi.

„Það var FH þarna fyrir hlé og það var margt sem við gátum gert betur í þeim leik,“ sagði Jökull, þrátt fyrir að Stjarnan hafi vissulega unni 5-0 sigur í þeim leik.

„Það er búin að fara mikil vinna í að vinna í þeim atriðum sem við gátum gert betur og við vissum að við þyrftum töluvert sterkari frammistöðu í dag en við áttum í þeim leik. Ég held að við höfum að mörgu leyti náð því og það er mjög sterkt að halda þessu Valsliði í núll mörkum.“

Þá vildi hann heldur hrósa liðinu í heild frekar en einstaka leikmönnum.

„Bara allir. Vörnin og Árni í markinu. Það eru svo margir og þegar það er svoleiðis þá er það bara eitt, það er liðsheildin. Hilmar og Jóhann Árni, stjórnin sem þeir hafa fyrir okkur, Emil með styrkinn uppi á topp, Adolf Daði kom frábær inn, Örvar og Gummi Kristjáns í bakvörðunum og það var ekki mikið sem fór í gegn,“ sagði sáttur Jökull að lokum.

Arnar: Það er bara eins og menn hafi verið í krummafót

Arnar Grétarsson, þjálfari Vals.Vísir/Diego

„Það er alltaf svekkjandi að tapa leikjum. Þetta var svolítið sérstakur leikur að því leytinu til að ég held að við hefðum getað spilað í allt kvöld án þess að skora,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Vals að leik loknum. 

„Stjarnan er með hörku fótboltalið og hélt boltanum vel í fyrri hálfleik, en mér fannst við skapa okkur alveg helling af færum. Þeir eiga náttúrulega skot í stöng og fá svo dauðafæri eftir það, en  bæði mörkin þeirra eru af ódýrari gerðinni. Við vorum að komast trekk í trekk í álitlegar sóknir en það vantaði gæðin á bæði sóknar- og varnarþriðjung. Það bara vantaði gæði og við vorum of oft að senda boltann illa, tapa boltanum og gera einstaklingsmistök. En að því sögðu þá er það sem gerist á varnarþriðjungi hjá okkur það sem skilur á milli.“

„Ég er ekkert að taka af Stjörnumönnum. Þeir spiluðu vel, voru aggresívir, hlupu og eru bara drullugóðir í fótbolta.“

Þá segir Arnar að hans menn hafi einfaldlega verið undir í baráttunni.

„Ég get alveg tekið undir það. Allavega í fyrri hálfleik. Þá fannst mér þeir koma mjög grimmir. Eins og ég sagði við þig fyrir leik hvað myndi gerast með brotthvarfi Ísaks að stundum er það tvíeggja sverð. Stundum gerist það að lið tvíeflast og mér fannst þeir bara virkilega flottir í dag. Spiluðu, voru grimmir, eru góðir í fótbolta og héldu boltanum vel. En að því sögðu þá fengu þeir slatta af hornspyrnum í fyrri hálfleik og náðu að halda boltanum vel, en ég held að við höfum samt fengið fleiri færi en þeir. Á okkar degi hefðum við skorað anso mörg mörk í þessum leik, en við vorum bara ekki á okkar degi sóknarlega.“

„Ég veit ekki hvað við komumst oft upp hlaupandi inn í teig og það er bara eins og menn hafi verið í krummafót.“

Hann kveðst einnig vera ósáttur við það að með sigri hefði Valsliðið blandað sér af alvöru í toppbaráttuna, en er nú enn sex stigum á eftir toppliði Víkings.

„Það leit þannig út í byrjun að við værum að verða undir því þeir mættu grimmir. Og það sem menn taka náttúrulega eftir og það sem skilur á milli er að skora mörk. Fyrra markið fer af manni og inn og seinna marki er að mínu viti hálfgerð gjöf. Svo erum við allan tíman að sækja á þá í seinni hálfleik, við fáum fín tækifæri og fín færi sem við nýtum ekki. Við værum eflaust að tala um aðra hluti ef við hefðum nýtt þessi augnablik. Við gerðum það ekki og það er sárt.“

„Mér fannst við alveg gera nóg, en það vantaði einhver gæði og það er það sem skilur á milli. Þú þarft að nýta það sem þú færð og við gerðum það ekki í dag.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira