Innlent

Farþegaskip strandaði á Hornströndum

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Frá Hornströndum.
Frá Hornströndum. vísir/vilhelm

Farþegaskip, sem var á leið frá Ísafirði til Hornstranda, strandaði þegar komið var á leiðarenda. Engin hætta var á ferðum og komust farþegar sjálfir úr skipinu. Þeir afþökkuðu ferð til baka með björgunarbát, enda komin á áfangastað.  

Nánar tiltekið strandaði skipið í Látravík við Hornbjargsvita. Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar staðfestir þetta í samtali við Vísi en Rúv greindi fyrst frá.

„Tveir björgunarbátar voru sendir út, annars vegar frá Ísafirði og Bolungarvík. Það var aldrei talin nein hætta á ferðum en skipið virðist stranda við að setja farþega í land.“ segir Jón Þór sem hefur ekki nánari upplýsingar um ástæður þess að skipið strandaði, né stærð skipsins. Líklega sé um að ræða 5-10 manna hóp sem hafi verið um borð. 

Rétt fyrir klukkan níu var báturinn losaður af bátnum Gísla Jóns frá Ísafirði. Skipið verður nú dregið til móts við varðskipið Þór. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×