Skoðun

Hemjum ham­fara­hamingjuna

Arnar Már Ólafsson skrifar

Í þriðja sinn á rúmum tveimur árum gýs nú á Reykjanesskaganum. Í þriðja sinn erum við tiltölulega heppin því hvorki er um að ræða mikið gosútfall sem ógnar flugi til og frá landinu eða veldur slæmu öskufalli í grennd gossins, né er gosið staðsett þannig eða af þeirri stærðargræðu að það ógni innviðum og íbúðabyggð.

Eldgos eru mikið sjónarspil og geta verið einstaklega sjálfuvæn. En það verður að hafa í huga að eldgos eru fyrst og fremst meiriháttar náttúruhamfarir. Því hlýtur það að vera grundvallaratriði og forgangsverkefni almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra, lögreglustjóra viðkomandi umdæmis og annarra stjórnvalda sem að málinu koma að tryggja öryggi borgaranna. Hluti af því getur verið að auðvelda og bæta mögulegt aðgengi að svæðinu – en það getur ekki verið í forgangi.

Þó aldrei sé það þannig að opinbert eftirlit og aðhald sé hafið yfir gagnrýni eða eigi að fara fram athugasemdalaust, hlýtur samt traust okkar til þeirra sérfræðinga sem almannavörnum og eftirliti með náttúruvá að ganga fyrir þörfum hagsmunaaðila eða áhugafólks. Almannavarnir hafa skilgreint hlutverk og bera mikla ábyrgð. Það er fyrst og fremst þeirra og viðkomandi lögreglustjóra að vega og meta aðstæður útfrá fyrirliggjandi upplýsingum, þar með talið hvort réttlætanlegt og öruggt sé fyrir aðgengi almennings.

Almannavarnir og lögreglan hafa í reynd einna bestu yfirsýn yfir stöðu mála – mun betri en nokkur annar, jafnvel þrautreyndasta útivistarfólk. Á fyrstu dögum hamfara – eins og eldgos alltaf er – er sérstaklega mikilvægt að gefa aðgerðastjórn svigrúm til ákvarðana og virða niðurstöður þeirra og ráðleggingar. Öryggi almennings, þar með talið þeirra ferðamanna sem fýsir að berja gosið eigin augum, er alltaf í fyrsta sæti hjá þeim.

Í því ljósi er ágætt fyrir okkur öll sem sækjum landið heim í skjóli þess trausts sem við alla jafna berum til viðbragðsaðila að við hemjum okkur í hamfarahamingjunni. Virðum þær takmarkanir sem settar verða um aðgengi á gosvæðið, þ.m.t. þær tímabundnu lokanir sem óhjákvæmilega mun þurfa að grípa til. Komum fram við fulltrúa aðgerðastjórnar – sérstaklega sjálfboðaliða björgunarsveita, lögreglu og landvarða – af þeirri virðingu og þakklæti sem þau eiga skilið.

Höfundur er ferðamálastjóri.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×