Innlent

Eldgosið mallar áfram: Göngufólk á von á reykjarmekki á leið sinni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Það var allur gangur á því hvað göngufólk sá á gosstöðvunum í gær. Sumir lýstu stórkostlegri upplifun á meðan aðrir sögðust lítið hafa séð sökum reyks.
Það var allur gangur á því hvað göngufólk sá á gosstöðvunum í gær. Sumir lýstu stórkostlegri upplifun á meðan aðrir sögðust lítið hafa séð sökum reyks. Vísir/Vilhelm

Litlar breytingar hafa orðið á gosstöðvunum frá því í gærkvöldi að sögn Veðurstofunnar.

„Í nótt hefur þetta bara mallað áfram,“ segir Elísabet Pálmadóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. 

„Þetta er svipuð virkni og var í gær og engar sérstakar breytingar.“ 

Rannsóknarstofa í eldfjallafræði og náttúruvá, Háskóli Íslands minnir á að afl eldgossins við Litla-Hrút sé verulegt og útflæðið sömuleiðis. Þetta myndefni sýni aðra mynd af gígunum en vefmyndavélar. Þá er því velt upp hvort göngufólk sé helst til nálægt gígunum.

Elísabet segir að óróinn hafi einnig haldist svipaður. Hún segir að þótt skjálftavirknin sé ekki dottin niður sé hún ekkert í líkingu við það sem var fyrir gos. 

„Við erum enn að fá skjálfta við Keili og Kleifarvatn og líka eitthvað á sjálfu svæðinu en það er mun minna en var fyrir gos.“ 

Aðspurð hvernig muni veðra á göngufólks sem hyggst sjá gosið segir Elísabet: 

„Það er norðlæg átt, 8 til 13 metrar á sekúndur en svo mun hvessa aðeins þegar líður á daginn. Þannig að það er gasmengun til suðurs.“ 

Gönguleiðin frá bílastæði að gosstöðvum er um tíu kílómetra löng. Svo þarf að ganga sömu vegalengd til baka.Grafík/Rúnar Vilberg Hjaltason

Hún segir því að eins og í gær þurfi göngufólk að ganga í gegnum reykjarmökk um stund áður en það kemst að gosstöðvunum.

Elísabet Inga, fréttakona okkar, var í beinni útsendingu frá gosstöðvunum í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi. Þar lýsti hún upplifun sinni af gossvæðinu og ræddi við göngufólk sem hafði ólíka sögu að segja af ferðalagsi sínu að eldgosinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×