Fótbolti

Val­geir Lund­dal og fé­lagar í góðri stöðu fyrir seinni leikinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Valgeir Lunddal er lykilmaður hjá sænsku meisturunum.
Valgeir Lunddal er lykilmaður hjá sænsku meisturunum. Rudy Alvardo

Sænsku meistararnir í BK Häcken eru í góðum málum eftir fyrri leik liðsins gegn The New Saints frá Wales í undankeppni Meistaradeildar Evrópu. Valgeir Lunddal Friðriksson byrjaði leikinn í hægri bakverðinum hjá Häcken og lagði sitt af mörkum í 3-1 sigri kvöldsins.

Heimamenn í Häcken byrjuðu af krafti og Ibrahim Sadiq kom þeim yfir strax á 7. mínútu leiksins. Valgeir Lunddal renndi boltanum þá á Sadiq sem átti fyrirgjöf sem fór í varnarmann og þaðan aftur til Sadiq sem skoraði með skoti í fyrsta.

Það tók heimamenn svo aðeins sex mínútur að tvöfalda forystuna, Mikkel Rygaard þar að verki. Gestirnir gáfust þó ekki upp og minnkuðu muninn þegar rúmlega hálftími var liðinn af leiknum.

Even Hoveland kom heimamönnum aftur í tveggja marka forystu áður en fyrri hálfleik var lokið og staðan 3-1 í hálfleik.

Valgeir Lunddal var tekinn af velli eftir rúma klukkustund en ekkert mark var skorað í síðari hálfleik, lokatölur 3-1 og sænsku meistararnir í góðum málum fyrir síðari leik liðanna sem fram fer í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×