Innlent

Opnað inn á gossvæðið frá Suður­strandar­vegi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Gossvæðið er ekki hættulaust.
Gossvæðið er ekki hættulaust. Vísir/Vilhelm

Opnað hefur verið inn á gossvæðið við Litla-Hrút frá Suður­strandar­vegi en ekki frá öðrum vegum eða vega­slóðum. Þetta kemur fram í til­kynningu frá lög­reglu.

Leið upp að gos­stöðvunum er það sem við­bragðs­aðilar kalla Mera­dala­leið.  Veður­stofa Ís­lands mun gefa út upp­fært hættu­kort af svæðinu eftir klukku­tíma eða svo. Ganga þarf um tuttugu kíló­metra leið fram og til baka. Göngu­ferðin hentar því alls ekki öllum, að því er segir í til­kynningunni.

Mikil­vægt er að hafa í huga að gossvæðið er hættu­legt svæði þar sem að­stæður geta breyst skyndi­lega. Lög­regla varar fólk við að dvelja nærri gos­stöðvunum vegna gasmengunar. Hætta eykst þegar vind lægir. Þá geta lífs­hættu­legar gas­tegundir safnast í dældum og geta reynst ban­vænar.

Nýjar gos­sprungur geta opnast með litlum fyrir­vara og glóandi hraun getur fallið úr hraun­jaðri og hröð og skyndi­leg fram­hlaup orðið þar sem nýjar hraun­tungur brjótast fram sem erfitt getur verið að forðast á hlaupum.

Göngu­menn eru beðnir um að klæða sig eftir veðri, nes­ta sig og gleyma ekki að hafa næga hleðslu á far­símum. Ekki er tryggt öryggi far­síma á svæðinu.

Bílum skal lagt á merktum stæðum við Suður­strandar­veg en ekki í veg­kanti Suður­strandar­vegar. Þeir gangi að gos­stöðvum sem treysta sér til þess, vel búnir og nes­taðir. Fylgist með vind­átt og frétta­flutningi.

Akstur utan vega er bannaður. Ferða­menn eru beðnir um að fara að fyrir­mælum við­bragðs­aðila. Fjallið Keilir er inn á merktu hættu­svæði.

MeradalsleiðLögreglan á Suðurnesjum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×