Erlent

Ríkis­stjórn Hollands sprungin

Máni Snær Þorláksson skrifar
Mark Rutte á blaðamannafundinum í kvöld. Þar tilkynnti hann að ríkisstjórn Hollands væri sprungin.
Mark Rutte á blaðamannafundinum í kvöld. Þar tilkynnti hann að ríkisstjórn Hollands væri sprungin. EPA/PHIL NIJHUIS

Ríkisstjórn Hollands er sprungin vegna ósættis stjórnarflokkana um innflytjendamál. Ríkisstjórnin hefur verið ósammála um hvernig hún eigi að snúa sér í málaflokknum í nokkurn tíma en um eitt og hálft ár er síðan hún tók til starfa. 

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, staðfesti á blaðamannafundi í kvöld að ríkisstjórnin væri fallin. Hann sagðist ætla að segja af sér á morgun. Þó sagði hann að ráðherrar muni sinna sínum embættum fram að næstu kosningum sem talið er að haldnar verði í nóvember á þessu ári.

Í umfjöllun BBC um stjórnarslitin kemur fram að VVD, stjórnmálaflokkur Rutte, hafi reynt að takmarka það hversu margir hælisleitendur koma til landsins. Umsóknir um vernd hafi aukist um þriðjung á síðasta ári og voru þá 47 þúsund talsins. Talið er að umsóknirnar verði 70 þúsund í ár.

Rutte vildi takmarka það hversu margir ættingjar hælisleitenda í Hollandi geti fengið hæli þar í landi. Um er að ræða hælisleitendur sem flúið hafa stríð. Rutte vildi að ekki yrði fleirum en tvöhundruð hleypt inn í landið í hverjum mánuði.

Aðrir ríkisstjórnarflokkar voru virkilega ósammála þessu og ekki tókst að finna lausn sem allir flokkarnir gátu sætt sig við.

„Þessi ákvörðun var mjög erfið,“ sagði Rutte er hann tilkynnti um stjórnarslitin. Flokkarnir hafi farið langt til að finna lausn en allt hafi komið fyrir ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×