Fótbolti

Hareide á­nægður með vista­skipti Sverris Inga

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sverrir Ingi í leik með íslenska landsliðinu.
Sverrir Ingi í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Vilhelm

Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, er hæstánægður með vistaskipti Sverris Inga Ingasonar. Danska félagið Midtjylland festi kaup á miðverðinum nýverið og kynnti hann til leiks með áhugaverðu myndbandi fyrr í dag.

Hareide ræddi skiptin við danska miðilinn Tipsbladet. Þar segir hann einfaldlega að um frábær félagaskipti sér að ræða, bæði fyrir Midtjylland og hinn 29 ára gamla Sverri Inga.

„Sverrir Ingi er mjög góður í öllum þáttum leiksins. Þrátt fyrir að tala ekki mikið er hann leiðtogi þegar kemur að því að spila leikinn. Er yfirvegaður, sterkur, með góðan hraðan, les leikinn vel, öflugur í návígum og tæklingum,“ sagði landsliðsþjálfarinn.

„Held að hann passi mjög vel í efstu deild í Danmörku. Honum líður vel á boltanum og vill spila út úr vörninni. Hann var framúrskarandi þegar ég sá hann fyrst á æfingu. Ég tel þetta mjög gott fyrir bæði hann og Midtjylland,“ bætti Hareide við.

Midtjylland spilaði vel á síðari hluta síðasta tímabils og leikur í Sambandsdeild Evrópu á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×