Innlent

Stefni allt í að gjósi á milli Fagra­dals­fjalls og Keilis

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Keilir og svæðið í kring úr lofti. Þar er líklegast að byrji nú að gjósa.
Keilir og svæðið í kring úr lofti. Þar er líklegast að byrji nú að gjósa. Vísir/RAX

Það stefnir allt í það að gangurinn undir svæðinu á milli Fagra­dals­fjalls og Keilis sé að fara að gjósa. Þetta kemur fram í til­kynningu frá rann­sóknar­stofu Há­skóla Ís­lands í eld­fjalla­fræði og náttúru­vá. 7000 skjálftar hafa mælst síðan skjálfta­hrinan hófst á Reykja­nesi þann 4. júlí og inn­flæði kviku er tvö­falt hraðari en í fyrra.

Í til­kynningunni segir að komi gosið upp á þessu svæði og afl gossins verði svipað því sem var í gosinu í fyrra og eigin­leikar kvikunnar svipaðir þá sé lík­legast að hraun­flæðið fylgi rennsli­leiðum á korti sem má sjá hér að neðan.

„Því sunnar sem gosprungan er því meiri líkur eru á því að hraunið flæði yfir gígana og hraunið frá 2022 og niður í Mera­dali,“ segir í til­kynningunni.

„Ef hún opnast miðja vegu þarna á milli, er lík­legast að hraunið renni til austurs í átt að Núps­hlíðar­hálsi. Því nær Keili sem gosprungan þá aukast líkurnar á því að hraun flæði til norðurs og niður eftir hlíðum Þráinskjaldar.“

Inn­flæði kviku tvö­falt hraðar en í fyrra

Í til­kynningu Veður­stofunnar kemur fram að um 7000 skjálftar hafa mælst frá því að hrinan hófst á Reykja­nes­skaga þann 4.júlí síðast­liðin. Hrinan er vegna nýs kviku­inn­skots á mili Fagra­dals­fjalls og Keilis.

„Þrátt fyrir minnkandi skjálfta­virkni bendir af­lögun sem mæld er með GPS og InSAR ein­dregið til þess að kvika sé að færast nær yfir­borði,“ segir í til­kynningunni.

Gliðnun er eftir um 2.8 kíló­metra línu á milli Fagra­dals­fjalls og Keilis með miðju rétt norðan við litla Hrút sem er í mjög góðu sam­ræmi við það sem skjálfta­virkni hefur sýnt, að sögn Veður­stofunnar. Mælingar sýna einnig að inn­flæði kviku er næstum tvö­falt hraðar en í að­draganda gossins í ágúst 2022, en heildar­rúm­mál kviku sem komið hefur upp í efri hluta skorpunnar er svipað eða um 12 milljón rúm­metrar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×