Erlent

Eitt barn látið í London eftir að bíll keyrði inn í barna­skóla

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Frá skólanum í morgun. Mikill viðbúnaður var á staðnum.
Frá skólanum í morgun. Mikill viðbúnaður var á staðnum. Victoria Jones/PA via AP

Eitt barn er látið og sex önnur slösuð auk tveggja fullorðinna eftir að Land Rover jeppa var keyrt inn í grunn­skóla í Wimbledon hverfi í suð­vestur­hluta London í morgun. Um er að ræða skóla fyrir stúlkur á aldrinum 4 til 11 ára.

Í um­fjöllun breska ríkis­út­varpsins kemur fram að gríðar­legur við­búnaður sé á skóla­lóðinni. Tuttugu sjúkra­bílar auk tveggja slökkvi­liðs­bíla eru á vett­vangi. Ljóst er að bíllinn var á tölu­verðum hraða þegar hann keyrði í bygginguna.

Breska ríkis­út­varpið hefur eftir lög­reglunni í London að ekki sé talið að um hryðju­verk hafi verið að ræða. Lög­regla hefur að öðru leyti ekki gefið frekari upp­lýsingar um til­drög á­rekstursins en hefur hafið rann­sókn. 

Ljóst er að um töluverða alvarlega áverka er að ræða hjá hinum slösuðu. Tekið er fram að sjúkra­flutninga­þyrla sé á staðnum. Haft er eftir íbúa í hverfinu að í­búar séu harmi slegnir.

Gríðarlegur viðbúnaður er á staðnum. EPA-EFE/TOLGA AKMEN

Frétt uppfærð kl. 13:23. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×