Innlent

Vaktin: Beðið eftir eldgosi

Hólmfríður Gísladóttir, Ólafur Björn Sverrisson, Magnús Jochum Pálsson og Kristinn Haukur Guðnason skrifa
Flestir stærstu skjálftarnir sem mælst hafa undanfarinn sólarhring hafa átt upptök sín á svæðinu á milli Fagradalsfjalls og Keilis.
Flestir stærstu skjálftarnir sem mælst hafa undanfarinn sólarhring hafa átt upptök sín á svæðinu á milli Fagradalsfjalls og Keilis.

Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Almannavarna, segir menn nú frekar gera ráð fyrir að gos hefjist en ekki. Fundað var um stöðuna í morgun og óvissustigi hefur verið lýst yfir.

Hjördís segir næsta bráða verkefni að miðla upplýsingum til ferðamanna en gamla gossvæðinu í Meradölum hefur ekki verið lokað enn sem komið er. Varað hefur verið við grjóthruni á svæðinu.

Sjö skjálftar hafa mælst yfir fjórum, sá stærsti 4,6 stig. Þá hafa samtals 2.078 skjálftar mælst frá því í gær, þar af um 600 frá því klukkan 6 í morgun.

Náttúruvársérfræðingur Veðurstofu sagði í samtali við Vísi í morgun að nú væri fylgst með því hvort skjálftarnir yrðu grynnri með tímanum, sem væri besta vísbendingin um líkurnar á gosi. Talið er að skjálftarnir hingað til séu að orsakast vegna kvikuinnskots á um fimm kílómetra dýpi.

Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgdist með þróun mála í vaktinni í dag en henni er nú lokið.

Fréttin var uppfærð klukkan 23:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×