Enski boltinn

Fram­lengdi samning sinn eftir að hún sigraðist á krabba­meini

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Verður áfram á mála hjá Arsenal.
Verður áfram á mála hjá Arsenal. Marco Steinbrenner/Getty Images

Hin 32 ára gamla Jen Beattie hefur skrifað undir framlengingu á samningi sínum við enska úrvalsdeildarfélagið Arsenal. Hún greindist með brjóstakrabbamein í október árið 2020.

Beattie samdi við Arsenal öðru sinni ári áður en hún greindist með krabbamein. Hún hélt áfram að æfa og spila með félaginu þrátt fyrir að gangast undir geislameðferð. Beattie staðfesti svo fyrr á þessu ári að krabbameinið væri á bak og burt. Til að toppa gott ár þá framlengdi hún á dögunum samning sinn við Skytturnar.

„Ég er svo glöð að hafa skrifað undir nýjan samning. Ég elska félagið og fólkið sem ég vinn með,“ sagði hún við undirskriftina.

„Jen er fyrirmyndar atvinnumaður og ég er ánægður með að hún verði áfram hluti af hópnum okkar á næstu leiktíð,“ bætti Jonas Eidevall, þjálfari Arsenal, við.

Alls hefur Beattie spilað 157 leiki fyrir Arsenal og skoraði í þeim 32 mörk. Síðasta mark hennar kom gegn Wolfsburg í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu á síðustu leiktíð. Þá hjálpaði hún Arsenal að vinna enska deildarbikarinn, þeirra fyrsti titill síðan 2019.

Þá hefur þessi öflugi varnarmaður spilað 143 A-landsleiki fyrir Skotland og skorað í þeim 24 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×