Enski boltinn

„Ég segi nei“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Reece James er ánægður hjá Chelsea.
Reece James er ánægður hjá Chelsea. Visionhaus/Getty Images

Reece James, leikmaður Chelsea í ensku úrvalsdeildinni, hefur gefið það til kynna að hann hafi engan áhuga á að ganga í raðir Arsenal.

Á meðan Chelsea hefur losað sig við hvern leikmanninn á fætur öðrum í sumar eru Skytturnar hans Mikel Arteta að styrkja sig í von um að veita Manchester City enn frekari keppni um enska meistaratitilinn.

Kai Havertz hefur þegar farið frá Chelsea til Arsenal en Jorginho fór sömu leið fyrr á þessu ári. Einn bjartsýnn stuðningsmaður Arsenal birti færslu á Twitter þar sem hann sagði einfaldlega „Reece James til Arsenal, hver segir nei?“

Hinn 23 ára gamli James var ekki lengi að svara færslunni sjálfur. Svar hans var stutt og hnitmiðað: „Ég segi nei.“

Þó svo að Arsenal sé um þessar mundir á betri stað en Chelsea þá hefur James allavega lítinn áhuga á að færa sig um set. Ekki það að Arsenal hafi yfir höfuð falast eftir kröftum hans.

Arsenal byrjar næsta tímabil á heimavelli gegn Nottingham Forest þann 12. ágúst á meðan Chelsea fær Liverpool í heimsókn degi síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×