Fótbolti

Sjáðu Norðurálsmótið: Pönnsur í bíl og börnin í besta gír

Sindri Sverrisson skrifar
Leiknismenn nutu sín í botn, rétt eins og Leiknisgoðsögnin Hannes Þór Halldórsson gerði á sínum tíma en hann var núna á meðal foreldra á mótinu.
Leiknismenn nutu sín í botn, rétt eins og Leiknisgoðsögnin Hannes Þór Halldórsson gerði á sínum tíma en hann var núna á meðal foreldra á mótinu. Stöð 2 Sport

„Við eigum bara frábæra kennara og svo erum við búnir að æfa mikið í sumar,“ sögðu vaskir Eyjapeyjar eftir stórsigur í leik á Norðurálsmótinu á Akranesi, hressir og kátir líkt og aðrir af þeim tæplega 2.000 krökkum sem spiluðu á mótinu um síðustu helgi.

Stefán Árni Pálsson var á Akranesi um síðustu helgi og ræddi við unga sem aldna í nýjasta þætti Sumarmótanna sem sýndur var á Stöð 2 Sport í gærkvöld. Hér að neðan má nú sjá þáttinn í heild sinni.

Klippa: Norðurálsmótið 2023

Á Norðurálsmótinu eru margir keppendur að spila á sínu fyrsta stóra móti, og ekki síður að prófa í fyrsta sinn að gista með liðsfélögum sínum, án pabba og mömmu. Ekki var þó að heyra á viðmælendum Stefáns að það væri neitt tiltökumál, að minnsta kosti þegar spurt var um hábjartan dag.

Mótið hófst á eins dags keppni 8. flokks en svo tók 7. flokkurinn við, og að þessu sinni voru bæði stráka- og stelpulið með, en mótið var áður ætlað strákaliðum.

„Það er bara skemmtilegt að spila á móti strákum, og berjast,“ sagði ein af ungum Skagastúlkum sem Stefán ræddi við. Maður þarf líka bara að vera svolítið sterkur,“ bætti vinkona hennar við.

Þessar hressu Skagastelpur höfðu gaman af því að spila við strákalið á heimavelli.Stöð 2 Sport

„Ætlum bara að skora milljón mörk“

Stefán ræddi einnig við Valsara og Njarðvíking, fyrir leik liðanna, og spurði hvernig þeir ætluðu að fara að því að vinna: „Við spilum úti en þeir eru alltaf inni,“ sagði Valsarinn, greinilega vel meðvitaður um Reykjaneshöllina og skort á knattspyrnuhöllum í Reykjavík.

„Við ætlum bara að skora milljón mörk,“ sagði Njarðvíkingurinn hins vegar.

Nóg var um að vera utan vallar einnig og hitti Stefán Árni meðal annars á Þorlákshafnarbúa sem bakaði pönnukökur í sendiferðabíl sínum. Baksturinn gekk reyndar misjafnlega, sérstaklega með truflun vegna viðtals, en eftirspurnin var mikil eftir pönnsunum.

„Í hugum barnanna er þetta stórmót og ekkert annað“

Í matsalnum var einnig mikið líf og þar var staddur Hannes Þór Halldórsson, markvörður Íslands á báðum stórmótunum sem karlalandsliðið hefur farið á, mættur að sjá son sinn og fleiri.

„Þetta var það skemmtilegasta sem maður gerði þegar maður var polli, svo það er gaman að geta upplifað þetta núna í gegnum börnin sín,“ sagði Hannes og tók undir að mótið minnti á stórmótin sem hann hefði farið á. „Þetta gerist ekki stærra. Í hugum barnanna er þetta stórmót og ekkert annað.“

Sumarmótin eru á Stöð 2 Sport. Næsta mót í röðinni er Orkumótið í Vestmannaeyjum sem fram fer nú um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×