Erlent

„Vopnuð uppreisn hefði verið kæfð hvort eð er“

Máni Snær Þorláksson skrifar
Pútín ávarpaði Rússland í kvöld.
Pútín ávarpaði Rússland í kvöld. EPA/GAVRIIL GRIGOROV

Forseti Rússlands segir að uppreisn Wagner-hópsins um helgina hafi sýnt að allar tilraunir til að brjóta stjórn Rússlands niður að innan muni enda með tapi. Hann segist ætla að sjá til þess að réttlætinu verði fullnægt þegar kemur að skipuleggjendum uppreisnarinnar.

Þetta er á meðal þess sem kom fram í ávarpi Vladimír Pútín til rússnesku þjóðarinnar í kvöld. Samkvæmt BBC nefndi hann Jevgení Prigozhin, eiganda málaliðahersins Wagner-hópsins, ekki sérstaklega á nafn. Prigozhin hefur sagt að markmiðið með uppreisninni yhafi verið að koma í veg fyrir að hópurinn væri leystur upp. Ekki hafi verið um valdarán að ræða.

Skilaboð Pútíns í kvöld voru þó sú að þeir sem skipulögðu uppreisnina hefðu svikið land sitt og þjóð. Þeir væru að vinna vinnu óvinarins með því að reyna að sundra Rússlandi og draga það inn í blóðbað. 

Pútín sagði samstöðu borgaranna í uppreisninni um helgina hafa sýnt að allar tilraunir til að kúga eða skipuleggja valdarán muni enda með tapi. „Vopnuð uppreisn hefði verið kæfð hvort eð er,“ hefur CNN eftir honum.

Pútín þakkaði þá Wagner-liðum fyrir að stöðva uppreisnina áður en blóðsúthellingar hófust. Hann segist ætla að standa við loforð sín um að leyfa þeim að snúa aftur til Hvíta Rússlands, eða Belarús. Einnig þakkaði hann Alexander Lúkasjenka, forseta Hvíta Rússlands, en sá er sagður hafa átt heiðurinn af því að samið var um að binda enda á uppreisnina á friðsaman hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×