Erlent

Raun­veru­leg ógn við vald Pútíns

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir bandarísk stjórnvöld fylgjast grannt með stöðunni í Rússlandi. 
Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir bandarísk stjórnvöld fylgjast grannt með stöðunni í Rússlandi.  AP/Leah Milli

Antony Blin­ken, utan­ríkis­ráð­herra Banda­ríkjanna, segir upp­reisn Yev­geny Prigoz­hin og Wagner mála­liðanna í Rúss­landi í gær hafa verið raun­veru­lega ógn við vald Vla­dimírs Pútíns, Rússlands­for­seta. Hann segir Banda­ríkin fylgjast vel með stöðunni.

Breska blaðið The Guar­dian hefur eftir Blin­ken að banda­rísk stjórn­völd hafi undir­búið sig undir allar mögu­legar niður­stöður vegna stöðunnar í Rúss­landi, meðal annars þá stöðu að ríkis­stjórn Vla­dimírs Pútíns Rúss­lands­for­seta falli.

„Um er að ræða innan­ríkis­mál Rússa sem þeir verða að leysa úr. Að sjálf­sögðu fylgjumst við með stöðunni þegar um er að ræða ríki af þessum skala, sér­stak­lega ríki sem hefur yfir að búa kjarn­orku­vopnum,“ segir ráð­herrann.

Banda­rísk yfir­völd hafi ekki tekið eftir neinum breytingum á til­högun rúss­neskra kjarn­orku­vopna. Blin­ken segir hins­vegar að yfir­völd fylgist grannt með stöðunni. Hann segir skamm­lífa upp­reisn Wagner liða fela í sér raun­veru­lega ógn við vald Vla­dimírs Pútíns og sýni raun­veru­lega bresti í valdi rúss­neska hersins.

„Staðan felur í sér raun­veru­legar á­skoranir fyrir Pútín og rúss­nesk yfir­völd sem þau geta ekki litið fram­hjá á sama tíma og þau eru að kljást við sókn Úkraínu­manna. Ég held að þetta feli í sér tæki­færi fyrir Úkraínu­menn í stríðinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×