Erlent

Erfitt að ná völdum meðan enginn snýst gegn Pútín

Vésteinn Örn Pétursson og Oddur Ævar Gunnarsson skrifa
Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðiprófessor, segir á brattann að sækja fyrir málaliða Wagner. 
Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðiprófessor, segir á brattann að sækja fyrir málaliða Wagner.  Vísir/Vilhelm

Prófessor í stjórn­mála­fræði segir ekki hægt að líta öðru­vísi svo á en að um valda­ráns­til­raun sé að ræða af hálfu Wagner liða í Rúss­landi. Hafa verði í huga að enginn hátt settur sam­starfs­maður Pútín hafi enn sem komið er snúist gegn honum og því verði erfitt fyrir Wagner liða að koma á valda­skiptum.

„Hvort þetta mun leiða til borgara­styrj­aldar og valda­skipta eða hvort að sókn mála­liðanna ein­fald­lega fjari út á næstu klukku­stundum eða dögum, er mjög erfitt að segja til um,“ segir Baldur Þór­halls­son, prófessor í stjórn­mála­fræði.

Eins og fram hefur komið greindi Yev­geny Prigoz­hin, leið­togi hópsins, frá því í gær að Rússar hefðu gert árás á her­stöð hópsins í suður­hluta Rúss­lands, þar sem fjöldi mála­liða hafi týnt lífi. Prigoz­hin hét því að gera út af við yfir­menn hersins og aðra sem stæðu í vegi fyrir honum.

Eftir á­varp Prigoz­hin héldu mála­liðar Wagner til Rostov borgar í suður­hluta Rúss­lands, og tóku yfir stjórn borgarinnar. Vla­dimír Pútin, for­seti Rúss­lands hefur sagt mála­liðunum að leggja niður vopn.

Þá hét hann því að draga þá sem að henni kæmu til á­byrgðar. Eftir á­varp Pútíns sögðu for­svars­menn Wagner að for­setinn hefði tekið ranga á­kvörðun og að brátt myndu Rússar eignast nýjan for­seta.

Enginn hátt settur sam­starfs­maður Vla­dimírs Pútíns, Rúss­lands­for­seta, hefur enn sem komið er snúist gegn for­setanum.

„Á meðan svo er þá verður mjög erfitt fyrir Wagner liða að koma á valda­skiptum í Rúss­landi,“ segir Baldur.

Farið að valda verulegum óróleika í nágrannaríkjunum

„En ef þeir ná að sækja á­fram fram og taka yfir fleiri her­stöðvar og borgir, þá náttúru­lega horfir ein­fald­lega fram á borgara­styrj­öld í Rúss­landi og hvert hún mun leiða er náttúru­lega ó­mögu­legt að segja til um. Það er líka at­hyglis­vert að þetta er farið að valda veru­legum ó­ró­leika í ná­granna­ríkjum Rúss­lands, sér­stak­lega Hvíta-Rúss­landi en einnig öðrum ríkjum, þannig það er mikill titringur á öllu svæðinu.“

Hann segir nokkuð ljóst að staða inn­rásar Rússa í Úkraínu sé um­tals­vert breytt. Upp­reisn Wagner hópsins hafi veikt stöðu Pútíns veru­lega heima fyrir.

„Hvernig sem þetta endar er staða Rúss­lands og Pútín veikari og staða Úkraínu sterkari. Ég myndi jafn­vel gera ráð fyrir því, en það fer eftir því hvernig þróunin verður á næstu klukku­tímum og dögum, að þetta muni auð­velda fram­sókn úkraínska hersins í landinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×