Innlent

Gekk hrein­dýrunum í móður­stað

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Björn Magnússon hreindýrabóndi er eigandi dýranna sem líta á hann sem foreldri.
Björn Magnússon hreindýrabóndi er eigandi dýranna sem líta á hann sem foreldri. Stöð 2

Hreindýrin Mosi og Garpur vita ekkert betra en að fá hreindýramosa, salt og drekka vatn úr pela. Þau þekkja eiganda sinn í sjón sem hefur gengið þeim í móðurstað eftir að þeim var bjargað móðurlausum uppi á heiði.

Í Hreindýragarðinum á bænum Vínlandi á Héraði rétt við Egilsstaði má finna þá Mosa og Garp sem eru tveggja ára en þeim var bjargað móðurlausum uppi á heiði þegar þeir voru einungis nokkurra daga gamlir.

Starfsmenn Hreindýragarðsins bjóða upp á leiðsögn um garðinn þar sem gestum gefst kostur á að læra um dýrin, skoða þau og gefa þeim hreindýramosa - en tarfarnir eru tamdir.

En hvað borða hreindýr?

„Hreindýramosa, hey, korn, bygg og mjög mikið af salti,“ segir Harpa Sif Þórhallsdóttir, starfsmaður hjá Hreindýragarðinum. 

Björn Magnússon hreindýrabóndi er eigandi dýranna sem líta á hann sem foreldri þeirra enda gekk hann þeim í móðurstað þegar þau voru einungis nokkurra daga gömul. Þegar hann nálgast garðinn hlaupa þau fagnandi á móti honum.

Hvernig dýr eru hreindýr?

„Hreindýr eru mjög gæf en já þau eru svakalega gæf og alltaf í kringum okkur og koma oft hlaupandi. Sjáiði Björn, hann á þau og þau koma alltaf hlaupandi til hans.“

Þá finnst þeim sérstaklega gott að fá vatn úr pela.

„Hreindýrin hérna fyrir aftan mig eru tveggja ára gömul, þau eru þokkalega stór en eiga samt eftir að stækka í svona þrjú ár í viðbót.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×