Fótbolti

Breiða­blik gæti mætt FC Kaup­manna­höfn í Meistara­deild Evrópu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Eru Blikar á leið á Parken?
Eru Blikar á leið á Parken? Vísir/Hulda Margrét

Ef allt gengur upp munu Íslandsmeistarar Breiðabliks og Danmerkurmeistarar FC Kaupmannahafnar mætast í forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Þrír Íslendingar eru meðal leikmanna FCK, þar á meðal sonur þjálfara Breiðabliks.

Í morgun var dregið í 2. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í höfuðstöðvum Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA í Nyon í Sviss. Þar kom það á daginn að fari svo að Breiðablik fari í gegnum umspilið, sem fram fer hér á landi, sem og fyrstu umferð forkeppni Meistaradeildarinnar þá munu Kópavogspiltar mæta Kaupmannahafnarpiltum.

FC Kaupmannahöfn er mikil Íslendinganýlenda en landsliðsmennirnir Hákon Arnar Haraldsson og Ísak Bergmann Jóhannesson leika með liðinu sem og Orri Steinn, sonur Óskars Hrafns Þorvaldssonar – þjálfara Breiðabliks.

Leið Breiðabliks

Íslandsmeistararnir hefja leik í umspili fyrir forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Spilað verður á Íslandi, Kópavogsvelli nánar tiltekið. Breiðablik mætir Tre Penne frá San Marínó í undanúrslitum umspilsins á þriðjudaginn kemur, 27. júní.

Vinni Breiðablik þann leik fer það í úrslit umspilsin, sá leikur fer fram 30. júní. Þar mæta Blikar annað hvort Atlètic Club d'Escaldes frá Andorra eða Budućnost Podgorica frá Svartfjallalandi. Breiðablik og síðarnefnda liðið elduðu grátt silfur saman á síðustu leiktíð.

Fari svo að Breiðablik fari í gegnum umspilið bíður þeirra viðureign við Írlandsmeistara Shamrock Rovers í fyrstu umferð forkeppni Meistaradeildarinnar. Þar er leikið heima og að heiman. Sigurvegarinn úr þeirri viðureign mætir svo FCK.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×