Fótbolti

Valgeir: Gæti hafa verið rangstaða

Smári Jökull Jónsson skrifar
Valgeir Lunddal lék allan leikinn í hægri bakverðinum hjá Íslandi.
Valgeir Lunddal lék allan leikinn í hægri bakverðinum hjá Íslandi. Vísir/Hulda Margrét

„Ég held að svekkelsið gæti ekki verið meira, að fá þetta svona í andlitið á 90. mínútu eftir alla þessa vinnu á móti þessu liði. Þetta er gríðarlega svekkjandi,“ sagði Valgeir Lunddal Friðriksson eftir tapið gegn Portúgal í kvöld.

Valgeir lék allan leikinn í hægri bakvarðarstöðunni og komst vel frá sínu. Hann sagði að líðanin á vellinum hefði verið góð allan tímann.

„Algjörlega, mér fannst við eiga dauðafæri sem Guðlaugur Victor fékk í fyrri hálfleik. Við náðum að spila fínan bolta á köflum í fyrri hálfleik og halda í boltann. Þetta var alltaf að fara að vera erfitt verkefni, þeir eru með toppgæja í öllum stöðum.“

„Að fá þetta mark á 90.mínútu og svona tæpt. Ég er búinn að sjá myndir af þessu, þetta gæti líka hafa verið rangstaða en svona er þetta.“

Valgeir var sammála því að það væri margt jákvætt að taka úr verkefninu þrátt fyrir skort á stigum.

„Á endanum snýst þetta um að fá niðurstöður, að fá þrjú stig og stig í heildina. Við erum með núll stig eftir tvo leiki, auðvitað hefði þetta mátt fara betur.“

„Við eigum tvo góða leiki núna og í næsta verkefni í september þá þurfum við að fá stig ofan á frammistöðurnar.

Valgeir er að fá sitt fyrsta alvöru tækifæri með landsliðinu í þessum tveimur leikjum gegn Slóvakíu og Portúgal en hann hefur leikið sem atvinnumaður hjá Häcken í Svíþjóð síðustu tvö tímabilin.

„Ég var partur af síðasta júníverkefni en fékk ekki mínútur. Að koma inn í þetta og vera partur af þessu og fá hlutverk, það er geðveikt.“

Valgeir fékk enga smá mótherja í sinni stöðu, Joao Cancelo og Rafael Leao mættu honum á vængnum.

„Það var smá stress þegar maður sá að Cancelo og Leao voru að keyra á mig, þetta var alltaf að fara að vera erfitt. Við erum „underdogs“ og þetta er svekkelsi að fá ekki stig úr leiknum eftir að hafa þjáðst sem lið allan leikinn. Ég er fyrst og fremst stoltur af liðinu.“

Klippa: Valgeir Lunddal - Viðtal

Tengdar fréttir

Kennir Willum og Herði ekki um: „Portúgalinn oflék þetta“

Åge Hareide segir það ekki hafa verið Herði Björgvini Magnússyni að kenna að Portúgalar skyldu sleppa við rangstöðu í markinu gegn Íslandi í kvöld, og að Willum Þór Willumsson hafi ekki verðskuldað rauða spjaldið sem hann fékk.

Albert: Finnst við vera að byggja eitthvað

Albert Guðmundsson var svekktur en samt nokkuð ánægður með frammistöðu íslenska liðsins gegn Portúgal í kvöld. Hann segir hægt að byggja á frammistöðu liðsins í þessum landsliðsglugga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×