Íslenski boltinn

Gísli fer til Vals

Sindri Sverrisson skrifar
Gísli Laxdal Unnarsson bætist í leikmannahóp Vals þegar leiktíðinni lýkur, og mögulega strax í næsta mánuði.
Gísli Laxdal Unnarsson bætist í leikmannahóp Vals þegar leiktíðinni lýkur, og mögulega strax í næsta mánuði. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Valsmenn hafa tryggt sér krafta Skagamannsins Gísla Laxdals Unnarssonar sem mun flytja sig yfir á Hlíðarenda í síðasta lagi við lok yfirstandandi keppnistímabils í haust.

Samningur Gísla við ÍA rennur út í lok leiktíðar og í samtali við Fótbolta.net staðfesti Börkur Edvardsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, að Gísli hefði nú skrifað undir samning við Val. Fyrst var greint frá vistaskiptum Gísla í hlaðvarpsþættinum Þungavigtinni.

Mögulegt er að Gísli fari til Vals í sumar, þegar félagaskiptaglugginn er opinn frá 18. júlí til 15. ágúst, en Börkur sagði það verða skoðað. Ljóst er að þá þyrftu Valsmenn að semja um kaupverð við ÍA.

„Mögulega verður hann tekinn í glugganum ef þeir borga uppsett verð. Það voru mörg lið á eftir honum í haust vissi ég, eftir að Skaginn féll, en hann hefur ákveðið að fara á Hlíðarenda,“ sagði Kristján Óli Sigurðsson í Þungavigtinni, en þar sáu menn ekki fram á að Gísli fengi stórt hlutverk í Val:

„Í fljótu bragði sé ég ekki hvernig hann á að komast að þar. Ég læt mér fróðari menn útskýra það. Hann stóð sig vel með Skaganum í hitteðfyrra, og er hörku kantmaður. Í fyrra átti hann kannski ekkert sitt besta tímabil og í sumar hefur hann ekki verið mjög áberandi í þessu Skagaliði,“ sagði Kristján.

Gísli er 22 ára gamall og á að baki einn U21-landsleik. Hann lék alla 27 leiki ÍA í Bestu deildinni á síðustu leiktíð, og skoraði fimm mörk, en liðið féll niður í Lengjudeildina og er þar nú í 4. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×