Körfubolti

Jordan selur Charlotte Hornets

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Michael Jordan er að selja hlut sinn í Charlotte Hornets.
Michael Jordan er að selja hlut sinn í Charlotte Hornets. Jacob Kupferman/Getty Images

Michael Jordan, einn allra besti körfuboltamaður sögunnar, er við það að selja hlut sinn í NBA-liðinu Charlotte Hornets.

Það er körfuboltasérfræðingurinn Adrian Wojnarowski sem greinir frá tíðindunum á ESPN, en hann hefur eftir heimildarmönnum sínum að Gabe Plotkin, minnihlutaeigandi í Atlanta Hawks, og Rick Schnall, minnihlutaeigandi í Charlotte Hornets, muni kaupa hlut Jordans.

Þessir sömu heimildarmenn segja að aðilarnir muni skrifa undir samning á næstu dögum.

Jordan hefur átt meirihluta í Charlotte Hornets síðan árið 2010 og er hann eini þeldökki meirihlutaeigandi NBA-deildarinnar. Þegar öll tilskilin leyfi hafa verið fengin munu þeir Plotkin og Schnall hins vegar taka við sem meirihlutaeigendur liðsins.

Jordan mun þó áfram vera yfirmaður félagsins þar til nýliðavalinu lýkur og þegar salan er gengin í gegn mun hann enn eiga minnihluta í félaginu.

Michael Jordan er eins og áður segir einn allra besti körfuboltamaður sögunnar, en á sínum leikmannaferli varð hann NBA-meistari sex sinnum og valinn verðmætasti leikmaðurinn fimm sinnum. Hann keypti meirihluta Charlotte Hornets árið 2010 fyrir 275 milljónir bandaríkjadala sem samsvarar um 37,7 milljörðum króna.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×