Fótbolti

Lagerbäck: „Afar góð á­­kvörðun hjá KSÍ að ráða Åge til starfa“

Aron Guðmundsson skrifar
Lars Lagerbäck er mættur til landsins og er spenntur fyrir komandi tímum hjá íslenska landsliðinu í fótbolta
Lars Lagerbäck er mættur til landsins og er spenntur fyrir komandi tímum hjá íslenska landsliðinu í fótbolta Vísir/Steingrímur Dúi Másson

Lars Lagerbäck, fyrrum lands­liðs­þjálfari ís­lenska lands­liðsins í fót­bolta, er spenntur fyrir stjórnar­tíð Åge Hareide með liðið. Að­stæður nú séu að mörgu leiti ansi svipaðar þeim sem voru til staðar þegar Lars tók við liðinu á sínum tíma.

Lagerbäck þarf vart að kynna fyrir þjóðinni en Ís­lenska lands­liðið komst á fyrsta skipti á stór­mót undir stjórn hans og fór alla leið í 8-liða úr­slit á EM 2016.

Lars er nú mættur til landsins og starfar hann sem sér­fræðingur Viaplay í tengslum við komandi leik lands­liðsins gegn Slóvakíu í undan­keppni EM á laugar­daginn.

Lars Lagerbäck og Kári Árnason fagna 1-1 jafnteflinu gegn Portúgal á Stade Geoffroy-Guichard í Saint-Etienne á EM í Frakklandi 2016. Lars hætti að þjálfa landsliðið að mótinu loknu,. Jean Catuffe/Getty Images

Svíinn kannast vel við Åge Hareide, nú­verandi lands­liðs­þjálfara Ís­lands, sem stýrir Ís­landi í fyrsta skipti á laugar­daginn kemur og ber hann Norð­manninum söguna vel en Åge leitaði ráða hjá Lars er KSÍ bauð honum lands­liðs­þjálfara­starfið á sínum tíma.

„Þetta var virki­lega góð á­kvörðun hjá KSÍ (að ráða Åge Hareide til starfa), sér í lagi ef maður skoða þá kosti í þjálfara­málum sem standa lands­liðum til boða nú til dags. Åge býr yfir reynslunni á þessu sviði, hann er góð manneskja með opinn huga og á auð­velt með það að vinna með öðrum. Þetta er því afar góð á­kvörðun hjá KSÍ, að ráða hann til starfa.“

Åge Hareide, landsliðsþjálfari Íslandsvísir/Egill

Åge er þekktur fyrir að vilja láta lið sín spila bein­skeyttan sóknar­leik og telur Lars að leik­stíll hans muni henta ís­lenska lands­liðinu vel. Norð­maðurinn verði þó að finna jafn­vægið milli varnar og sóknar.

„Auð­vitað þarf hann nú að læra inn á gæðin sem að búa innan leik­manna­hóps ís­lenska lands­liðsins og þá er hann einnig raun­sæis­maður.

Það er rétt að hann vill spila bein­skeyttan sóknar­leik en hann verður einnig að finna jafn­vægið í leik liðsins. Næsti leikur er gegn Slóvakíu, sem er alls ekki slakt lið og kjöl­farið tekur við leikur gegn Portúgal, Åge þarf því að vera með for­gangs­at­riðin á hreinu fyrir þessa tvo leiki en ég fékk það á til­finninguna, þegar að ég talaði við hann á dögunum, að hann hefur pælt mikið í varnar­leik ís­lenska liðsins. Ég tel hann vera á réttri leið.“

Sér kunnuglega hluti

Lars er á­nægður með fyrsta lands­liðs­hópinn sem Åge velur og segir að­stæður lands­liðsins nú að ein­hverju leiti sam­bæri­legar þeim að­stæðum sem voru uppi er hann stýrði liðinu í fyrsta sinn árið 2012.

„Að mínu mati hefur hann gert vel í í vali sínu á fyrsta lands­liðs­hópnum með eldri og reynslu­meiri leik­mönnum í bland við yngri og spennandi leik­menn. Að mínu mati þarf maður alltaf að hafa augun á yngri leik­mönnum sem maður venur smátt og smátt við A-lands­liðinu.

Með þessu venur hann yngri leik­mennina við að­ferðum og leik­stíl sínum og ég nefndi það við hann á dögunum að að­stæðurnar núna, þegar hann fer í sína fyrstu leiki með Ís­landi, eru á margan hátt þær sömu og þegar að ég stýrði mínum fyrstu leikjum 2012.

Það er vonandi að þróunin verði sú sama í þetta skipti, ef það gerist þá er fram­tíðin ansi björt hjá ís­lenska lands­liðinu.“

Birkir Bjarnason og Lars Lagerbäck á æfingu út í Frakklandi 2016Vísir/EPA

En er mögu­leikinn á öðru stór­móti fyrir ís­lenska lands­liðið til staðar? Getur þjóðin leyft sér að dreyma?

„Maður ætti alltaf að leyfa sér að dreyma en maður verður einnig að horfa raun­sætt á hlutina. Staðan er á­huga­verð hjá ís­lenska lands­liðinu ef maður horfir á nú­verandi lands­liðs­hópinn.

Åge fær auð­vitað að­eins nokkra daga til þess að undir­búa liðið fyrir fyrstu leiki sína en ef liðið nær að minnsta kosti í þrjú stig úr þessum tveimur leikjum þá er kapp­hlaupið um sæti á EM gal­opið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×