Fótbolti

„Áttum okkur á að leikurinn á laugar­dag er mjög mikil­vægur upp á fram­haldið“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnór í einum af 27 A-landsleikjum sínum.
Arnór í einum af 27 A-landsleikjum sínum. Alex Nicodim/Getty Images

Landsliðsmaðurinn Arnór Sigurðsson er spenntur fyrir leik Íslands og Slóvakíu á Laugardalsvelli á laugardaginn kemur. Hann segir mikilvægt að einbeita sér fyrst að þeim leik áður en horft til leiksins gegn Portúgal þremur dögum síðar.

„Mjög vel, gerist ekki betra en þetta. Gott viður og góður félagsskapur. Erum vel gíraðir og áttum okkur á að leikurinn á laugardag er mjög mikilvægur upp á framhaldið. Það er bara full fókus og allir klárir,“ sagði Arnór í viðtali við Vísi og Stöð 2 aðspurður hvernig komandi leikur leggðist í íslenska hópinn.

Einn leikur í einu 

„Held það sé best að einbeita sér að fyrri leiknum og reyna taka þrjú stig þar, það er auðvitað markmiðið. Vitum að seinni leikurinn er við Portúgal en getum alveg strítt þeim hérna heima. Best að leggja allan fókus í mikilvægan leik á laugardaginn og fara svo að skoða seinni leikinn.“

„Alltaf sérstakt að hitta vinina hér og vera með landsliðinu. Þetta er öðruvísi stemning með félagsliðinu. Maður hittir þá sjaldnar þannig það er mikil í stemning í hópnum,“ sagði Arnór um veruna með landsliðinu.

Klippa: Arnór Sig um landsleikina

Leikurinn gegn Slóvakíu verður fyrsti leikur liðsins undir stjórn hins 69 ára gamla Åge Hareide.

„Mér líst mjög vel og á hann. Maður sér að hann veit hvað hann vill og hefur reynslu í þessu. Veit hvað þarf til að ná árangri þannig ég er mjög spenntur að vinna með honum og reyna ná okkar markmiðum,“ sagði Arnór að lokum.

Íslenska landsliðið mætir Slóvakíu á Laugardalsvelli á laugardag. Leikurinn hefst kl. 18:45 og verður í beinni textalýsingu hér á Vísi. Viðtalið við A rnór má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×