Enski boltinn

Spilaði kvið­slitinn nær allt tíma­bilið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Son gat ekki verið upp á sitt besta vegna meiðsla á nýafstaðinni leiktíð.
Son gat ekki verið upp á sitt besta vegna meiðsla á nýafstaðinni leiktíð. Sebastian Frej/Getty Images

Son Heung-min, framherji Tottenham Hotspur og Suður-Kóreu, hefur greint frá því að hann hafi spilað stóran hluta síðasta tímabils kviðslitinn.

Hinn þrítugi Son átti langt því frá sitt besta tímabil þegar liðið endaði í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu. Son var mikið gagnrýndur fyrir spilamennsku sína en skoraði þó 10 mörk og lagði upp sex í 36 deildarleikum.

Framherjinn hefur nú greint frá því að hann hafi verið að glíma við kviðslit nær allt tímabilið. Hann fór loks í aðgerð eftir að tímabilinu lauk.

„Ég velti fyrir mér hvort ég ætti yfir höfuð að segja frá þessu en ég var að spila í gegnum sársauka í átta til níu mánuði. Ég gat ekki haldið áfram lengur svo ég ákvað að fara í aðgerð. Ég var að spila af 60 prósent getu,“ sagði Son í viðtali.

Son hefur verið algjör lykilmaður hjá Tottenham undanfarin ár og verður það eflaust hjá nýjum þjálfara liðsins, Ange Postecoglou. Hvað þá ef hann verður loks heill heilsu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×