Skoðun

Meiri dauði hér en við Noreg

Ingólfur Ásgeirsson skrifar

Fyrstu fjóra mánuði ársins drápust rúmlega 1,1 milljón eldislaxa í sjókvíum við Ísland. Það er um það bil 19-föld stærð villta íslenska laxastofnsins.

Tölur yfir laxadauðann í sjókvíunum er hægt að sjá á Mælaborði fiskeldis sem er birt á vefsvæði Matvælastofnunar (MAST) en tölurnar eru uppfærðar fyrir mánuðinn á undan undir lok þess næsta.

Lofa betrun en svíkja alltaf

Laxadauðinn sjókvíunum er hlutfallslega töluvert meiri hér en í sjókvíaeldi við Noreg, en þar þykir þó staðan óásættanleg. Norsku fyrirtækin og stjórnvöld heita á hverju ári bót og betrun en svo gerist ekki neitt.

Fagráð MAST um dýravelferð fjallaði í fyrsta skipti um þetta skelfilega ástand á mánaðarlegum fundi sínum nú í vor. Löngu tímabært var að þetta málefni væri rætt þar. MAST ber beinlínis skylda til að gæta að dýravelferð. Frammistaða sjókvíeldisfyrirtækjanna í þeim efnum er grátlega vond.

Sjókvíaeldi á laxi er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu

Í fyrra drápust um þrjár milljónir eldislaxa í sjókvíum við Ísland. Var það sorglegt met í sjókvíaeldi við Ísland, bæði í fjölda og hlutfalli af eldislaxi sem var settur í sjókvíarnar. Um það bil einn af hverjum fimm löxum þoldu ekki þann aðbúnað sem þessi ómannúðlega aðferð við matvælaframleiðslu býður eldisdýrunum upp á.

Ljósmyndin sem fylgir þessari grein sýnir löndun á eldislaxi sem stráféll í sjókvíum í Dýrafirði í fyrra. Fiskarnir drápust vegna bakteríusýkinga og vetrarsára.

Hver vilja leggja sér til munns matvæli sem eru framleidd með þessum hætti?

Löndun á eldislaxi á Vestfjörðum. Rúmlega 800.000 eldislaxar drápust í sjókvíum Arctic Fish í Dýrafirði í janúar og febrúar í fyrra. Athugið að þetta voru manngerðar hörmungar. Í tilkynningu frá móðurfélagi Arctic Fish til norsku kauphallarinnar kom að þennan hrikalega dauða eldisdýranna mátti meðal annars rekja til „meðhöndlunar“ á eldislaxinum. Ef bóndi á landi færi þannig með dýrin sín að þriðjungur þeirra dræpist, þá yrði hann umsvifalaust sviptur leyfi til dýrahalds og kærður til lögreglu.Veiga Grétarsdóttir

Höfundur er félagi í Íslenska náttúruverndarsjóðnum - The Icelandic Wildlife Fund.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×