Fótbolti

Andstæðingar Blika sömdu við Maicon fyrir tveimur árum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Maicon með Meistaradeildarbikarinn eftir sigur Inter á Bayern München í úrslitaleik keppninnar 2010.
Maicon með Meistaradeildarbikarinn eftir sigur Inter á Bayern München í úrslitaleik keppninnar 2010. getty/Shaun Botterill

Fyrstu andstæðingar Breiðabliks í forkeppni Meistaradeild Evrópu sömdu við gamla brasilíska stórstjörnu fyrir tveimur árum.

Íslandsmeistarar Breiðabliks drógust gegn Tre Penne frá San Marinó í undanúrslitum forkeppni Meistaradeildarinnar. Forkeppnin verður leikin á Kópavogsvelli 27.-30. júní. Í hinum undanúrslitaleiknum mætir Buducnost Podgorica frá Svartfjallalandi Atletic Club d’Escaldes frá Andorra.

Breiðablik er miklu sigurstranglegri enda er árangur Tre Penne í Evrópukeppnum afleitur. Liðið hefur spilað tuttugu Evrópuleiki, unnið einn en tapað nítján. Markatalan er 7-77. Eini sigurinn kom gegn Shirak frá Armeníu fyrir áratug.

Forráðamenn Tre Penne verða þó ekki sakaðir um að reyna og fara óhefðbundnar leiðir til að næla í hagstæð úrslit í Evrópukeppnum.

Fyrir tveimur árum (upp á dag á morgun) samdi Tre Penne nefnilega við Brasilíumanninn Maicon. Hann var þá fertugur og hafði síðast leikið með ítalska D-deildarliðinu Sona.

Maicon var á sínum tíma besti hægri bakvörður heims og var meðal annars í lykilhlutverki í liði Inter sem vann þrennuna tímabilið 2009-10. Hann lék 76 landsleiki fyrir Brasilíu.

Maicon var hjá Tre Penne í mánuð og lék tvo leiki með liðinu gegn Dinamo Batumi frá Georgíu í 1. umferð Sambandsdeildar Evrópu. Koma Maicons dugði Tre Penne þó skammt því liðið tapaði leikjunum tveimur, 7-0 samanlagt.

Tre Penne er ekki eina liðið frá San Marinó sem hefur samið við gamla hetju til að hjálpa sér í Evrópukeppni. Landi Maicons, Aldair, lék með Murata á árunum 2007-10, þá kominn vel yfir fertugt. Damiano Tommasi, fyrrverandi samherji Aldairs hjá Roma, samdi svo við La Fiorita fjögur sumur í röð og lék með liðinu í Evrópukeppni.

Ekki hafa enn borist fréttir af því að Tre Penne ætli að semja við gamla stjörnu til að hjálpa liðinu í baráttunni við Breiðablik en það væri ekki leiðinlegt að fá einhverja slíka á Kópavogsvöll undir lok mánaðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×