Innlent

Átján skjálftar vestan við Mýrdalsjökul í dag

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Síðast gaus í Kötlu, undir Mýrdalsjökli, árið 1918.
Síðast gaus í Kötlu, undir Mýrdalsjökli, árið 1918. vísir/vilhelm

Átján smáskjálftar hafa mælst norðan við Goðalandsjökul á Mýrdalsjökli í dag. Hrinan er ekki óeðlileg að mati náttúruvásérfræðings en náið er fylgst með svæðinu. 

Á myndinni sést þyrping vestan við jökulinn.veðurstofan

Frá klukkan níu í dag hafa átján skjálftar mælst, flestir að dýpi 10 kílómetrar og sá stærsti 1,6 að stærð, klukkan 12:49.

Einar Hjörleifsson náttúruvásérfræðingur segir enga breytingu á óróamerkjum.

„Þetta var rætt í dag. Svona skjálftavirkni kemur í þyrpingum og það er ekkert núna sem telst óeðlilegt. Þetta verður áfram vaktað með mælum á svæðinu,“ segir Einar í samtali við Vísi.

Ekki hafi verið mældar breytingar á rafleiðni í nærliggjandi ám. „Við teljum þetta eðlilega bakgrunnsjarðskjálftavirkni sem mælist umhverfis eldstöðvarnar. Þetta þarf ekki að vera upphafið að neinni atburðarrás.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×