Erlent

Segja prímata hafa stundað sjálfs­fróun í 40 milljón ár

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vísindamenn vita ekki með vissu hvaða þróunarfræðilega tilgangi sjálfsfróun hefur þjónað en hafa nokkrar tilgátur.
Vísindamenn vita ekki með vissu hvaða þróunarfræðilega tilgangi sjálfsfróun hefur þjónað en hafa nokkrar tilgátur. Getty/Felix Kastle

Þróunarfræðingar segja sjálfsfróun hafa verið iðkaða meðal prímata fyrir allt að 40 milljón árum síðan. Þeir hafa kortlagt hegðunina meðal núlifandi prímata en segja enn óljóst hvaða þróunarfræðilega tilgangi hún hefur þjónað.

„Það sem við getum sagt er að þessi hegðun var til staðar fyrir um 40 milljón árum, hjá sameiginlegum forföður allra apakatta og apa,“ segir Matilda Brindle, sem fór fyrir rannsókn á uppruna sjálfsfróunar við University College London.

„Það er ekki eins og ein tegundin hafi vaknað einn daginn og farið að gera þetta. Þetta er fornt, þróaður eiginleiki.“

Vísindamennirnir segja að við fyrstu sýn virðist sjálfsfróun truflandi og jafnvel skaðlegt athæfi. Lítið hefur verið fjallað um sjálfsfróun meðal kvendýra en ýmislegt bendir til þess að hegðunin kunni að auka líkur karldýrsins á að eignast afkvæmi.

Sérfræðingarnir segja til að mynda mögulegt að lágtsett karldýr kunni að stunda sjálfsfróun fyrir mökun til að auka líkurnar á því að koma inn í kvendýrinu, áður en sterkara karldýr skarast í leikinn. Þá kann sjálfsfróun að hjálpa karldýrinu við að hreinsa gamalt sæði úr sáðrásinni og hleypa nýrra sæði að fyrir næstu mökun.

Vísindamennirnir komust líka að því að tíðni sjálfsfróunar jókst í takt við aukna tíðni kynsjúkdóma í samfélögum, sem gæti þýtt að sjálfsfróunin hjálpi til við „hreinsun“ og dragi úr líkunum á sýkingu.

Hvað kvendýrin varðar er mögulegt að sjálfsfróun fyrir mökun veiti kvendýrinu möguleika á að velja með hvaða karldýri þær eignast afkvæmi með því að lækka sýrustigið í leggöngunum og undirbúa þau þannig fyrir sáðfrumur hins útvalda.

„Þetta er svo algeng hegðun í dýraríkinu að mér finnst það alveg stórfurðulegt að enginn hafi rannsakað þetta áður,“ segir Brindle í samtali við Guardian. Sjálfsfróun sé langt í frá óeðlileg, heldur partur af heilbrigðri flóru kynhegðunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×