Erlent

Ætla að tak­­marka að­­gang Rússa að fær­eyskum höfnum

Kjartan Kjartansson skrifar
Fiskiskip í Þórshöfn í Færeyjum. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Fiskiskip í Þórshöfn í Færeyjum. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/Getty

Færeyska heimastjórnin ætlar að takmarka aðgang rússneskra skipa að höfnum á eyjunum og banna viðgerðir á þeim nema í neyðartilfellum. Þá ætlar hún að ákveða það fyrir haustið hvort að umdeildur fiskveiðisamningur við Rússa verði framlengdur.

Aksel. V Johannesen, lögmaður Færeyja, tilkynnti þetta á blaðamannafundi í Viðareiði í dag, að sögn færeyska ríkisfjölmiðilsins Kringvarpsins. Takmörk verða einnig á umlestarnir rússneskra fiskiskipa í Færeyjum. Ákvörðunin er háð samþykki færeyska þingsins.

Rússnesk skip hafa umlestað um 400.000 tonnum af fiski sem þau hafa veitt í færeyskri og alþjóðlegri lögsögu í Færeyjum undanfarin ár. Með ákvörðuninni nú fá þau aðeins að umlesta fjórðungi þess, þeim hundrað þúsund tonnum sem þau mega veiða í færeyskri landhelgi.

Danska ríkisútvarpið segir að ákvörðunin feli það einnig í sér að ekki megi gera við rússnesk skip í færeyskum höfnum nema í neyðartilfellum

Deilt um framhald á áratugagömlum fiskveiðisamningi

Þá tilkynnti Johannesen að stjórn hans ætlaði sér að ákveða það fyrir haustið hvort að gagnkvæmur fiskveiðisamningur við Rússland frá 1977 verði endurnýjaður fyrir næsta ár. Samningurinn hefur veitt Færeyingum heimild til þess að veiða í Barentshafi, aðallega þorsk, en Rússar hafa í staðinn fengið að veiða kolmunna við Færeyjar og umlesta honum þar.

Eftir innrás Rússa í Úkraínu hafa raddir gerst háværari um að samningnum verði rift. Deilur hafa staðið um samninginn bæði innan Færeyjar og í Danmörku.

Tortryggni Færeyinga í garð Rússa jókst enn eftir að upplýst var í skandinavískri heimildarmynd að tvö rússnesk fiskiskip sem hefðu hringsólað í kringum Færeyjar og lagt að höfnum þar um árabil hafi mögulegt haft óhreint mjöl í pokahorninu.

Norskir lögreglumenn fundu meðal annars hertalstöðvar um borð í skipunum þegar þau komu til hafnarbæjarins Kirkenes frá Færeyjum í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×