Fótbolti

Edwin van der Sar yfirgefur Ajax

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Edwin van der Sar er hættur eftir mjög erfitt tímabil hjá Ajax.
Edwin van der Sar er hættur eftir mjög erfitt tímabil hjá Ajax. Getty/Marcel ter Bals

Edwin van der Sar er hættur sem framkvæmdastjóri hollenska félagsins Ajax. Félagið vildi halda honum en þessi fyrrum landsliðsmarkvörður Hollendinga var búinn að fá nóg og sagði starfi sínu lausu.

Van der Sar er þekktastur fyrir tíma sinn hjá Mancheter United þar sem hann spilaði frá 2005 til 2011 og varð fjórum sinnum enskur meistari. Hann spilaði líka 130 landsleiki fyrir Hollendinga.

Van der Sar hætti að spila árið 2011 og tók við starfi markaðsstjóra Ajax árið 2012. Hann hefur verið framkvæmdastjóri frá árinu 2016.

Stjórn félagsins mun taka yfir starfsskyldur Van der Sar 1. júní en félagið óskaði samt eftir því að hann verði formlega í starfinu til 1. ágúst.

„Eftir að hafa verið í ellefu ár í stjórninni þá er ég búinn að fá nóg. Við höfum upplifað æðislega hluti saman en þetta hefur líka verið mjög erfiður tími. Ég þakklátur fyrir fólkið sem ég hef kynnst á þessum tíma sem og unnið með á þessum öðrum ferli mínum hjá Ajax og það sem við höfum afrekað saman,“ sagði Edwin van der Sar í fréttatilkynningu frá Ajax.

„Mér finnst ég þurfa að komast í burtu, fá hvíld og gera aðra hluti. Mér líður ekki vel með að taka ákvarðanir með þessi yndislega félag á næstunni. Þess vegna ákvað ég að segja af mér,“ sagði Van der Sar.

„Við vildum að Edwin yrði áfram en hann hefur tekið sína ákvörðun. Við verðum að virða það. Síðasta tímabil hefur ekki rétta mynd af tíma hans við stjórnina hjá Ajax. Félagið hefur náð frábærum árangri á hans tíma og vaxið mikið,“ sagði stjórnarmaðurinn Pier Eringa í umræddri fréttatilkynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×