Innlent

Kennarar undir­rituðu kjara­samninga

Árni Sæberg skrifar
Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara og Mjöll Matthíasdóttir, formaður Félags grunnskólakennara.
Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara og Mjöll Matthíasdóttir, formaður Félags grunnskólakennara. Vísir/Vilhelm/Aðsend

Félag grunnskólakennara og Félag leikskólakennara skrifuðu nú undir kvöld undir kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga. Um er að ræða skammtímasamninga til eins árs.

Í fréttatilkynningu um undirritunina segir að tveir samningar hafi verið undirritaðir í húsakynnum Kennarasambandsins nú undir kvöld. Það hafi annars vegar verið Félag grunnskólakennara og hins vegar Félag leikskólakennara sem gengu frá samningum við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Vert er að taka fram að undirritun samningana mun engin áhrif hafa á boðaðar verkfallsaðgerðir BSRB, sem hafa meðal annars áhrif á starfsemi grunn- og leikskóla.

Kjarasamningar beggja félaga runnu út 31. mars síðastliðinn. Nýju samningarnir eru báðir skammtímasamningar, með gildistíma frá 1. apríl 2023 til 31. maí 2024.

Kynning samninganna hefst hjá báðum félögum strax eftir helgina. Nánara fyrirkomulag verður kynnt innan skamms, að því er segir í tilkynningu á vef Kennarasambands Íslands.

Að því loknu verða samningarnir bornir undir atkvæði félagsmanna FG og FL. Niðurstaða atkvæðagreiðslu þarf að liggja fyrir 2. júní 2023.

Ekki góðar aðstæður fyrir gerð langtímasamninga

Mjöll Matthíasdóttir formaður Félags grunnskólakennara segir í samtali við Vísi að ánægjulegt sé að tekist hafi að landa kjarasamningum, þó að til skamms tíma séu. Mikil vinna hafi farið í samningaviðræður þótt í þeim felist engar efnislegar breytingar frá fyrri samningum fyrir utan launaliðinn.

Hún segir ekki endilega tímabært að hefja viðræður um gerð langtímasamninga enda séu aðstæður í þjóðfélaginu ekki hagstæðar til þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×