Íslenski boltinn

Besta upphitunin: „Þetta var djöfulsins puð“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sandra Sigurðardóttir er leikjahæst í sögu efstu deildar á Íslandi.
Sandra Sigurðardóttir er leikjahæst í sögu efstu deildar á Íslandi. stöð 2 sport

Sandra Sigurðardóttir, fyrrverandi landsliðsmarkvörður, var gestur Helenu Ólafsdóttur í upphitun fyrir 5. umferð Bestu deildar kvenna.

Á vordögum tilkynnti Sandra að hún hefði lagt markmannshanskana á hilluna eftir langan og farsælan feril. Hann hófst hjá Þór/KA/KS, þaðan fór Sandra í Stjörnuna, millilenti eitt tímabil í Svíþjóð og endaði ferilinn svo í Val. Dvöl Söndru í Svíþjóð varð styttri en hún átti að vera. 

„Þetta leit út fyrir að vera mjög spennandi og var það alveg, að komast í sænsku deildina og prófa að taka þetta stökk, að spila í atvinnumennsku. Í sjálfu sér held ég að ég hafi grætt eitthvað á því en að sama skapi var þetta djöfulsins puð,“ sagði Sandra.

„Ég fékk samning, var á einhverjum launum en átti að vinna líka. Ég vann við að þrífa hús og held ég hafi fengið meira líkamlega út úr því að gera það fyrri part dags en úr æfingum seinni part. Þetta var puð, hark og erfitt. Þetta átti ekki að vera svona og þeir stóðu ekkert við allt. Það varð til þess að ég kom heim.“

Klippa: Besta upphitunin fyrir 5. umferð

Þrátt fyrir þessa slæmu reynslu af atvinnumennsku íhugaði Sandra að reyna aftur fyrir sér í henni.

„Það komu alveg upp tilboð en mér fannst það ekki nógu spennandi. Ég var líka komin með fjölskyldu og í námi. Ég sé ekkert eftir því að klára það og starfa við það,“ sagði sjúkraþjálfarinn Sandra. „Ég sé ekki eftir neinu en ég hefði alveg verið til.“

Horfa má á upphitunina fyrir 5. umferð Bestu deild kvenna í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×