Fótbolti

Willum lét enn og aftur að sér kveða í Hollandi

Smári Jökull Jónsson skrifar
Willum Þór hefur átt gott tímabil í hollensku deildinni.
Willum Þór hefur átt gott tímabil í hollensku deildinni. Vísir/Getty

Willum Þór Willumsson lagði upp eitt marka Go Ahead Eagles í 3-0 sigri liðsins gegn FC Volendam í hollensku úrvalsdeildinni í dag. Hann misnotaði einnig vítaspyrnu í leiknum.

Willum Þór hefur átt góðu gengi að fagna með Go Ahead Eagles á tímabilinu en liðið siglir lygnan sjó um miðja deild. Willum Þór hafði skorað átta mörk á leiktíðinni fyrir leikinn í dag og lagt upp tvö þar að auki fyrir félaga sína.

Hann var að sjálfsögðu í byrjunarliði Go Ahead Eagles í dag og var í sviðsljósinu strax eftir tveggja mínútna leik. Go Ahead Eagles fékk þá vítaspyrnu, Willum Þór steig fram til að taka spyrnuna en brást bogalistin.

Go Ahead Eagles náði hins vegar forystunni skömmu fyrir hálfleik þegar Isac Lidberg skoraði og liðið bætti við öðru marki á 51. mínútu með marki Oliver Edvardsen eftir sendingu Willums Þórs.

Dario Serra innsiglaði sigur heimamanna um miðjan fyrri hálfleikinn og 3-0 sigur þeirra staðreynd. Willum Þór lék allan leikinn í liði Go Ahead Eagles.

Alfons Samsted sat allan tímann á bekk Twente sem vann 5-0 útisigur gegn RKC Waalwijk. Það sama má segja um Andra Fannar Baldursson sem var ónotaður varamaður þegar NEC Nijmigen tapaði 3-0 á heimavelli gegn AZ Alkmaar. 

Twente er í fimmta sæti deildarinna en á ekki möguleika á Evrópusæti en Nijmigen er hins vegar í öllu lygnari sjó í ellefta sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×