Innlent

Leita að vopnum og biðja far­þega að mæta tíman­lega

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Aldrei áður hefur verið leitað að vopnum í innanlandsflugi hér á landi.
Aldrei áður hefur verið leitað að vopnum í innanlandsflugi hér á landi. Vísir/Vilhelm

Isavia biðlar til far­þega í innan­lands­flugi að mæta tíman­lega næstu tvo daga þar sem vopna­leit mun fara fram í fyrsta sinn hér á landi, tíma­bundið á meðan leið­toga­fundi Evrópu­ráðsins stendur. Icelandair biðlar til fólks að mæta níu­tíu mínútum fyrir brott­för.

„Þetta er í fyrsta sinn sem vopna­leit fer fram í innan­lands­flugi á Ís­landi og mun hún standa yfir frá klukkan 14:00 á morgun og til klukkan 17:00 á mið­viku­dag,“ segir Sig­rún Björk Jakobs­dóttir, fram­kvæmda­stjóri innan­lands­flugs hjá Isavia í sam­tali við Vísi. 

Greint var frá málinu í kvöld­fréttum Ríkis­út­varpsins en BB.is greindi fyrstur miðla frá málinu í dag og sagði farþegum á Ísafirði hafa verið tilkynnt um mögulegar tafir vegna vopnaleitarinnar.

Hand­leit

Sig­rún segir að Ís­land sé alla­jafna með undan­þágu þegar kemur að vopna­leit í innan­lands­flugi en yfir­völd hafi metið sem svo að á meðan leið­toga­fundi stendur sé það nauð­syn­legt.

„Við biðlum til fólks um að mæta tíman­lega í flug. Ekki síst vegna um­ferðar­tak­markana sem verða í kringum Reykja­víkur­flug­völl og tafir sem munu fylgja því en líka vegna þessara auknu öryggis­ráð­stafanna.“

Að­spurð segir Sig­rún að ekki hafi verið komið upp nýjum búnaði á Reykja­víkur­flug­velli vegna leitarinnar. „Það er vopna­leitar­búnaður til staðar á al­þjóða­flug­vellinum en annars staðar er um að ræða hand­leit.“

Far­þegar mæti vel tíman­lega

Guðni Sigurðs­son, upp­lýsinga­full­trúi Icelandair, segir fé­lagið í góðu sam­starfi við Isavia vegna leitarinnar. Hann segir hana að öðru leyti ekki hafa á­hrif á starf­semina.

„En við viljum beina því til far­þega líkt og Isavia að mæta vel tíman­lega fyrir flug. Við erum að tala um níu­tíu mínútur þessa tvo daga,“ segir Guðni Sigurðs­son í sam­tali við Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×