Körfubolti

Spilaði sinn fyrsta leik eftir að hafa verið sleppt úr rúss­nesku fangelsi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Brittney Griner snéri aftur á körfuboltavöllinn í nótt eftir að hafa verið sleppt úr rússnesku fangelsi.
Brittney Griner snéri aftur á körfuboltavöllinn í nótt eftir að hafa verið sleppt úr rússnesku fangelsi. Christian Petersen/Getty Images

Bandaríska körfuboltakonan Brittney Griner lék sinn fyrsta leik fyrir Phoenix Mercury eftir að hafa verið sleppt úr rússnesku fangelsi er liðið mætti Los Angeles Sparks í æfingaleik í nótt.

Griner var handtekin á flugvellinum í Moskvu í febrúar á síðasta ári með minna en eitt gramm af hassolíu í farangri sínum sem hún notaði í rafrettuna sína. Í kjölfarið var hún dæmd í níu ára fangelsi, en var svo sleppt úr fangelsi í desember á síðasta ári í skiptum fyrir alræmdan vopnasala.

Griner lék alls 17 mínútur í 19 stiga tapi Phoenix Mercury í nótt og var henni fagnað vel og innilega af viðstöddum áhorfendum. Hún skoraði tíu stig fyrir liðið og tók þrjú fráköst, en liðið mátti þola tap, 90-71.

Þetta var fyrsti leikur Griner fyrir Phoenix Mercury síðan árið 2021 og segist hún ekki hafa búist við því að ná að spila strax.

„Ég bjóst ekki við því að vera hérna,“ sagði Griner eftir leikinn. „Ég bjóst ekki við því að ég væri farin að spila körfubolta aftur svona fljótlega.“

Griner er einn þekktasti kvenkyns körfuboltaleikmaður heims og hefur orðið Ólympíumeistari með bandaríska kvennalandsliðinu í tvígang og heimsmeistari í tvígang.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×