Erlent

Imran Khan handtekinn í dómsal

Samúel Karl Ólason skrifar
Imran Khan, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistans.
Imran Khan, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistans. AP/K.M. Chaudhry

Imran Khan, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistans, hefur verið handtekinn. Lengi hefur staðið til að handtaka Khan þar sem hann er grunaður um spillingu og var það gert er hann mætti í dómsal í Islamabad í morgun.

Khan, sem tók við embætti forsætisráðherra árið 2018, var komið frá völdum í apríl í fyrra með vantrauststillögu sem samþykkt var á þingi. Hann var í kjölfarið ákærður fyrir spillingu og önnur brot. Khan særðist í skotárás í nóvember þegar maður hóf skothríð á mótmælum í Wazirabad.

Meðal þess sem hann er sakaður um er að hafa selt gjafir sem hann fékk í embætti og þar að auki er hann sakaður um að hafa reynt að leyna eigum sínum.

Khan heldur því fram að hann sé fórnarlamb pólitískra ofsókna.

AP fréttaveitan hefur eftir Fawad Chaudhry, háttsettum meðlimi í Tehreek-e-Insaf, stjórnmálaflokki Khans, að forsætisráðherrann fyrrverandi hafi verið dregin úr dómsalnum og fluttur á brott í lögreglubíl. Chaudhry segir Khan í raun hafa verið rænt.

Þá hefur fréttaveitan eftir embættismönnum að handtakan í morgun tengist nýju spillingarmáli og að handtökuskipun hafi verið gefin út í síðustu viku. Þeir segja Khan verða færðan aftur fyrir dómara seinna í dag.

Khan birti í morgun myndband þar sem hann sagði að tilraunum til að handtaka hann væri ætlað að koma í veg fyrir baráttu hans gegn þeirri ríkisstjórn sem tók við eftir að vantrauststillagan gegn honum var samþykkt. Hann hefur verið mjög hávær gegn ríkisstjórninni og kallað eftir því að kosningar verði haldnar sem fyrst.

Flokkur Khans birti svo myndband af hantöku Khan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×