Erlent

Rússar skutu 25 stýri­flaugum á Úkraínu í nótt

Gunnar Reynir Valþórsson og Atli Ísleifsson skrifa
Vitali Klitschko, borgarstjóri Kænugarðs, stendur fyrir framan íbúðabyggingu sem skemmdist í árásum Rússa fyrrinótt.
Vitali Klitschko, borgarstjóri Kænugarðs, stendur fyrir framan íbúðabyggingu sem skemmdist í árásum Rússa fyrrinótt. AP

Rússar eru sagðir hafa skotið 25 stýriflaugum á Úkraínu í nótt og í morgun, daginn sem þeir minnast sigurs Sovétmanna í seinni heimsstyrjöldinni.

Í tilkynningu frá Úkraínuher segir að tekist hafi að skjóta niður 23 flauganna, en þess er ekki getið hvar hinar tvær höfnuðu. Fimmtán flaugum var skotið á höfuðborgina Kænugarð og þar varð smávægilegt tjón af völdum braks úr flaugunum þegar þær voru skotnar niður.

Talsmaður hersins segir að flaugunum hafi verið skotið frá sprengjuflugvélum Rússa á Kaspíahafi.

Árásirnar í nótt koma í kjölfarið á einni stærstu árásarhrinu Rússa frá upphafi stríðs þegar fjölmörgum drónum var beitt auk eldflauga og stórskotaliðs.

Úrsúla von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, mætti Kænugarðs í morgun þar sem hún mun funda með Volodímír Selenskí Úkraínuforseta.

Viðburðir eru skipulagðir víða um Rússland til að minnast Sigurdagsins í dag, þó að búið sé að aflýsa einhverjum þeirra. Í rússnesku höfuðborginni Moskvu stendur til að halda umfangsmikla hersýningu í tilefni dagsins.

Serhiy Popko, talsmaður úkraínska hersins, segir að rússneskar hersveitir væru að reyna að „drepa eins marga og mögulega sé á þessum degi“. 


Tengdar fréttir

Rússar láta sprengjum rigna í Úkraínu

Yfirvöld í Úkraínu segjast hafa skotið niður þrjátíu og fimm íranska Shahed dróna í morgun en Rússar sendu þá á skotmörk víðsvegar um landið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×