Íslenski boltinn

Stórt skarð að fylla: Á­tján ára í marki Ís­lands­meistara | „Betra að þetta sé erfiðara“

Aron Guðmundsson skrifar
Fanney Inga Birkisdóttir hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína í marki Vals það sem af er tímabili
Fanney Inga Birkisdóttir hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína í marki Vals það sem af er tímabili Vísir/Vilhelm

Fann­ey Inga Birkis­dóttir 18 ára mark­vörður Vals í fót­boltanum hefur vakið mikla at­hygli í Bestu deild kvenna. Fann­ey sem er mikið efni er spennt fyrir fram­haldinu en hún þarf að fylla upp í stórt skarð.

Séns Fann­eyjar, sem er einn efni­legasti mark­vörður landsins, í marki Vals kemur í kjöl­farið á á­kvörðun fyrrum lands­liðs­konunnar Söndur Sigurðar­dóttur sem lagði skóna á hilluna fyrir ekki svo löngu síðan.

„Mér finnst það aðal­ega bara skemmti­leg á­skorun og bara enn betra að þetta sé erfiðara og svona stórt skarð að fylla í,“ segir Fann­ey í við­tali sem Guð­jón Guð­munds­son tók við hana. „Nú þarf maður bara að sýna að maður hefur það sem þarf til að sinna þessu hlut­verki.“

Fann­ey Inga segist aldrei hafa efast um sína eigin getu til þess að stíga upp sem aðal­mar­k­vörður Vals.

„Maður verður að hafa trú á sjálfum sér í þessum heimi, sér­stak­lega í markinu því þar er þetta bara 90% sjálfs­traust.“

Og að eigin sögn hefur henni liðið vel í markinu það sem af er tíma­bili.

„Mjög vel. Ég er með frá­bæra varnar­línu fyrir framan mig, ég treysti þeim fyrir öllu og ef þær klúðra eitt­hvað smá þá get ég bakkað þær upp. Þetta er gott sam­starf okkar á milli.“

Klippa: Aðens 18 ára milli stanganna hjá Íslandsmeisturunum

Bjóst ekki við að Sandra myndi hætta

En bjóst hún við að fá tæki­færi í byrjunar­liði Vals svona snemma á ferlinum?

„Manni langaði að fá tæki­færi en bjóst kannski ekki við að Sandra myndi hætta, sér­stak­lega ekki svona fljótt en það er bara á­nægju­legt að fá sénsinn og geta sýnt hvað maður getur.“

Hún tekur þessu hlut­skipti hins vegar ekki sem gefnu og veit að það þýðir ekkert að slaka á.

„Maður verður alltaf að sýna sitt og sanna, sér í lagi í svona stóru liði. Það á engin fast sæti í liðinu, maður verður að standa sig í hverjum einasta leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×