Innlent

Nærri helmingur lands­manna hefur á­hyggjur af skot­vopna­eign

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Mikill munur er á skoðunum fólks eftir því hvort þau hafa aðgang að skotvopnum eða ekki.
Mikill munur er á skoðunum fólks eftir því hvort þau hafa aðgang að skotvopnum eða ekki. Vísir/Vilhelm

Nærri helmingur lands­manna hefur á­hyggjur af skot­vopna­eign á Ís­landi, eða 46 prósent. Svipað margir hafa á­hyggjur í ár og í fyrra en tölu­vert færri höfðu á­hyggjur fyrir tveimur árum. Þá höfðu einungis 32,6 prósent lands­manna á­hyggjur af byssu­eign. Rúm­lega 20 prósent lands­manna segjast hafa að­gang að skot­vopnum.

Þetta sýna niður­stöður nýrrar könnunar Maskínu. Þar voru 1092 manns spurðir að því hversu miklar eða litlar á­hyggjur þau hafa af skot­vopna­eign á Ís­landi. Könnunin fór fram dagana 16. til 21. mars síðast­liðinn.

14,7 prósent sagðist hafa mjög miklar á­hyggjur af skot­vopna­eign og 31,2 prósent sagðist hafa frekar miklar á­hyggjur. 21,8 prósent sagðist hvorki hafa miklar né litlar á­hyggjur.

Þá sögðust 17 prósent lands­manna hafa frekar litlar á­hyggjur af málinu. 15,2 prósent segjast mjög litlar á­hyggjur hafa af skot­vopna­eign hér­lendis.

maskína

Eig­endur hafa minni á­hyggjur

Í könnun Maskínu má meðal annars sjá að þeir sem eiga skot­vopn hafa tölu­vert minni á­hyggjur en þeir sem eiga þau ekki. 42,4 prósent þeirra sem eiga skot­vopn hafa mjög litlar á­hyggjur og 19,8 prósent frekar litlar á­hyggjur.

Alls hafa hins­vegar 53,2 prósent þeirra sem ekki eiga skot­vopn á­hyggjur af eign á þeim hér­lendis. 35,5 prósent þeirra hafa frekar miklar á­hyggjur og 17,7 prósent mjög miklar.

Þá er spurt að því í könnun Maskínu hvort svar­endur hafi sjálfir að­gang að skot­vopnum. 20,7 prósent segjast hafa að­gang að skot­vopnum en 79,3 prósent ekki.

maskína



Fleiri fréttir

Sjá meira


×