Viðskipti innlent

Hrun hjá Marel og feðgarnir töpuðu 7,5 milljörðum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Feðgarnir eru stærstu eigendurnir í Eyri Invest sem eiga stærstan hlut í Marel. 
Feðgarnir eru stærstu eigendurnir í Eyri Invest sem eiga stærstan hlut í Marel.  Samsett

Verð á hluta­bréfum Marel lækkaði í gær um 17,56 prósent og fór markaðs­virði fé­lagsins úr 452 milljörðum niður í 381 milljarð. Eignarhlutur Eyrir Invest, stærsta hlut­hafinn í Marel, rýrnaði um 19,5 milljörða króna  vegna lækkunarinnar. Hlutur tveggja stærsta eig­enda Eyris, feðganna Þórðar Magnús­sonar og Árna Odds Þórðar­sonar rýrnaði um 7,5 milljarða vegna lækkana gær­dagsins.

Úr­vals­vísi­talan í Kaup­höllinni lækkaði um 7,5 prósent í við­skiptum gær­dagsins. Marel kynnti upp­gjör fé­lagsins eftir lokun markaða í fyrra­dag og kom lækkunin í kjöl­farið. Á eftir Marel lækkuðu hluta­bréf í Festi næst mest eða um 6,81 prósent en fé­lagið kynnti líkt og Marel upp­gjör sitt í fyrra­dag.

Lækkun úr­vals­vísi­tölunnar hefur að­eins tvisvar verið meiri en í gær. Síðast þann 12. mars árið 2020 lækkaði úr­vals­vísi­talan svo skarpt, eða um 8,3 prósent í kjöl­far heims­far­aldurs Co­vid-19. Þá var versti dagurinn þann 9. mars árið 2009 þegar vísi­talan lækkaði um 26,0 prósent.

Töpuðu 7,5 milljörðum

Stærsti hlut­hafinn í Marel er Eyrir Invest en fé­lagið á þar 24,7 prósent eignar­hlut. Stærstu ein­stöku hlut­hafar Eyris eru feðgarnir Þórður Magnús­son og Árni Oddur Þórðar­son.

Þeir eiga 20,7 prósent og 18,1 prósent hlut hvor. Í um­fjöllun Við­skipta­blaðsins kemur fram að virði þeirra hafi því í gær rýrnað sam­tals um 7,5 milljarða króna.

Eignar­hlutur Þórðar rýrnaði um 4.401 milljónir og hlutur Árna um 3.533 milljónir. Þórður hyggst láta af störfum fyrir stjórn fé­lagsins á aðal­fundi þess í maí. Gang­virði eignar­hluta Eyris í Mar­el lækkaði um 46 prósent í fyrra en Eyris tapaði alls 80 milljörðum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×