Körfubolti

Jóhann Þór áfram með Grindvíkinga

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jóhann Þór handsalar samninginn við Ingiberg Þór Jónasson formann körfuknattleiksdeildar Grindavíkur.
Jóhann Þór handsalar samninginn við Ingiberg Þór Jónasson formann körfuknattleiksdeildar Grindavíkur. Körfuknattleiksdeild Grindavíkur

Jóhann Þór Ólafsson verður áfram þjálfari Grindvíkinga í Subway-deild karla á næsta tímabili en skrifað var undir samning þess efnis nú undir kvöld.

Jóhann Þór tók við Grindavík á nýjan leik fyrir tímabilið sem senn lýkur en hann hafði áður þjálfað liðið og meðal annars komið því í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn vorið 2017 þar sem liðið beið lægri hlut gegn KR.

Grindavík hafði verið spáð nokkuð erfiðu gengi fyrir tímabilið í ár og hófst það með nokkurri rússíbanareið þar sem landsliðsmaðurinn Jón Axel Guðmundsson sneri heim en hélt svo strax út í atvinnumennsku á ný.  Liðið endaði að lokum í 7. sæti Subway-deildarinnar og fór örugglega í úrslitakeppnina. Þar féll liðið úr leik gegn Njarðvík þar sem Njarðvíkingar unnu alla þrjá leiki einvígisins.

Jóhann Árni Ólafsson verður áfram aðstoðarþjálfari liðsins en hann lék um árabil með Grindavík og Njarðvík. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×