Erlent

Biden sendir hermenn að landamærum Mexíkó

Samúel Karl Ólason skrifar
Mikill fjöldi fólks reynir að komast til Bandaríkjanna með ólöglegum hætti á degi hverjum.
Mikill fjöldi fólks reynir að komast til Bandaríkjanna með ólöglegum hætti á degi hverjum. AP/Christian Chávez

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur skipað varnarmálaráðuneytinu að senda 1.500 hermenn til landamæra Bandaríkjanna og Mexíkó. Það gerði hann vegna mikils fjölda fólks sem er að reyna að komast inn í landið um landamærin.

Í frétt Washington Post segir að búist sé við því að hermennirnir eigi að vera á landamærunum í níutíu daga og eiga þeir að aðstoða þá sem þegar eru að vinna á landamærunum en ekki koma með beinum hættu að löggæslu. Með því að nota hermenn er vonast til þess að hægt sé að losa fleiri landamæraverði úr stuðningsstöðum og nota þá til gæslu á landamærunum.

Heimavarnarráðuneyti Bandaríkjanna er sagt hafa beðið um að hermennirnir yrðu sendir en fyrir eru um 2.500 hermenn á svæðinu, fyrir utan meðlimi þjóðvarðsliðs Texas, og hafa hermenn reglulega verið sendir að landamærunum á undanförnum árum. Donald Trump, forveri Biden, sendi einnig hermenn að landamærunum.

Bandarískir embættismenn búast við því að fjöldi þeirra sem reyna að komast inn í Bandaríkin með ólöglegum hætti muni fara yfir tíu þúsund á dag á komandi dögum en þann 11. maí fellur úr gildi regla frá tímum Covid-faraldursins sem gerði landamæravörðum auðveldara að vísa farand- og flóttafólki úr landi.

Þessi regla var sett á í mars 2020 og hefur henni verið beitt rúmlega 2,6 milljón sinnum.

Fjöldi farand- og flóttafólks við suðurlandamæri Bandaríkjanna hefur náð nýjum hæðum á undanförnum mánuðum og Biden hefur brugðist við því með því að reyna að taka hart á ólöglegum innflytjendum og með því að reyna að búa til aðrar leiðir fyrir innflytjendur til að komast til Bandaríkjanna með löglegum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×