Fótbolti

Segir vinnu­­brögð Sýnar og KSÍ vera til skammar og hótar löngu fjöl­­miðla­banni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar, er allt annað en sáttur við vinnubrögð Sýnar og KSÍ.
Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar, er allt annað en sáttur við vinnubrögð Sýnar og KSÍ. Vísir/Hulda Margrét

Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar í Bestu-deild kvenna í knattspyrnu, er allt annað en sáttur við vinnubrögð KSÍ og Sýnar eftir að leik liðsins gegn Selfossi var frestað í annað sinn á innan við viku.

Leikur Þróttar og Selfoss átti upphaflega að fara fram í gær, mánudag. Vegna veðurs var hins vegar ákveðið að fresta leiknum um tvo daga og átti hann því að fara fram á morgun, miðvikudag.

Nú hefur leiknum hins vegar verið frestað í annað sinn og verður hann leikinn á fimmtudagskvöld klukkan 19:15 á Selfossi. Ástæða þess að leiknum var frestað í annað sinn var svo hægt væri að sýna leikinn í sjónvarpi.

„Svona hringl með leik­ina okk­ar set­ur allt úr skorðum“

Eins og áður segir er Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar, allt annað en sáttur við þessa ákvörðun. Í samtali við mbl.is í dag segir hann að vinnubrögðin séu til skammar og að hvorki hann né leikmenn Þróttar muni ræða við fjölmiðlamenn á vegum Sýnar eftir leik liðsins gegn Selfyssingum.

„Þessi vinnu­brögð eru til skamm­ar og ég fæ að vita það fyr­ir klukku­tíma síðan að þeir séu bún­ir að færa leik­inn fram til fimmtu­dags­ins,“ sagði Nik í sam­tali við mbl.is.

„Það stóð til að við mynd­um æfa í dag, fyr­ir leik­inn á morg­un, en þetta set­ur all­an und­ir­bún­ing­inn okk­ar úr skorðum. Leik­menn Þrótt­ar eru ekki með hundruð þúsunda í laun á mánuði eins og og sum­ir leik­menn karla­meg­in,“ segir Nik og bætir við að það geti verið heljarinnar vesen fyrir leikmenn liðsins þegar verið sé að riðla skipulaginu svona.

„Þær eru í vinn­um, í námi og eiga börn. Þær þurfa frí úr vinnu, þær þurfa að mæta í próf og stund­um þurfa þær að redda barnapöss­un fyr­ir börn­in sín. Svona hringl með leik­ina okk­ar set­ur allt úr skorðum fyr­ir bæði leik­menn og þjálf­ara og það versta er að þetta var gert í engu sam­ráði við hvor­ugt lið.“

Þá mun hvorki Nik né nokkur leikmanna Þróttar ræða við fjölmiðlamenn á vegum Sýnar eftir leikinn á fimmtudaginn. Þjálfarinn hótar því einnig að fjölmiðlabannið muni standa eitthvað lengur.

„Hvorki ég, né leik­menn Þrótt­ar munu ræða við fjöl­miðlamenn á veg­um Sýn­ar eft­ir þenn­an leik og við erum al­var­lega að íhuga að ræða ekki við neinn frá þess­um miðli eitt­hvað inn í sum­arið,“ sagði Nik að lokum í samtali við mbl.is.

„Vanvirðing gagnvart tíma og störfum leikmanna, þjálfara og sjálfboðaliða“

Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss, tekur undir þessa gagnrýni kollega síns og segir vinnubrögðin vera vanvriðringu gagnvar tíma og störfum leikmanna, þjálfara og sjálfboðaliða.

„Tek undir með kollega mínum. Þetta er mikil vanvirðing gagnvart tíma og störfum leikmanna, þjálfara og sjálfboðaliða að gera þetta með þessum fyrirvara,“ ritar Björn á Twitter-síðu sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×