Handbolti

Helltu yfir fær­eyska lands­liðs­þjálfarann í beinni í danska sjón­varpinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Peter Bredsdorff-Larsen ræðir hér við aðstoðarmenn sína.
Peter Bredsdorff-Larsen ræðir hér við aðstoðarmenn sína. Hondbóltssamband Føroya

Færeyingar verða með á Evrópumótinu í handbolta í byrjun næsta árs en þeir urðu fámennasta þjóðin til að tryggja sér sæti á stórmóti í liðsíþrótt.

Færeyjar er ein af þeim þjóðum sem komust inn á mótið með því að vera eitt af liðunum með besta árangur í þriðja sæti í sínum riðli.

Frábærir sigrar Færeyinga á Rúmeníu og Úkraínu í Höllinni á Hálsi skiluðu liðinu á endanum inn í úrslitakeppnina og þar gætu þeir lent í riðli með Íslendingum.

Alls verða fimm Norðurlandaþjóðir með á mótinu en fjórar af þeim verða í fyrsta styrkleikaflokki þegar dregið verður 10. maí næstkomandi.

Peter Bredsdorff-Larsen er þjálfarinn sem hefur náð að skrifa söguna með færeyska landsliðið en hann er 55 ára gamall Dani sem var meðal annars aðstoðarþjálfari Guðmundar Guðmundssonar hjá danska landsliðinu.

Bredsdorff-Larsen tók við færeyska landsliðinu árið 2021 en hafði áður gert Bjerringbro-Silkeborg að dönskum meisturum eða vorið 2016.

Færeyska liðið tapaði reyndar lokaleik riðilsins, á útivelli á móti Austurríki, en fögnuðu engu að síður vel í leikslok þegar kom í ljós að þeir hefðu komist inn á EM 2024 sem fram fer í Þýskalandi.

Danska ríkissjónvarpið fjallaði um færeyska ævintýrið og fékk Peter Bredsdorff-Larsen í viðtal í beinni eftir leikinn.

Hann var ekki búinn að vera lengi í viðtalinu þegar tveir leikmenn færeyska landsliðsins komu og helltu yfir hann eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×