Innlent

Piltarnir áfram í haldi næstu fjórar vikurnar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Einn sakborninganna undir teppi í Héraðsdómi Reykjaness í dag.
Einn sakborninganna undir teppi í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Vísir/Vilhelm

Átján ára piltur sem er í haldi lögreglu vegna manndráps í Hafnarfirði var í dag í Héraðsdómi Reykjaness úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 24. maí.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu. Þar segir að lögregla hafi farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna, í þágu rannsóknar hennar á andláti karlmanns á þrítugsaldri í Hafnarfirði í síðustu viku.

Tveimur öðrum piltum, sem báðir eru yngri en 18 ára, var enn fremur gert að sæta vistun á vegum barnaverndaryfirvalda í tengslum við málið, sömuleiðis til 24. maí. Síðarnefndu piltarnir hafa báðir kært úrskurðinn til Landsréttar.

Allir þrír hafa sætt gæsluvarðhaldi frá því að málið í Hafnarfirði kom upp. Segir lögregla að ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar um rannsókn málsins að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×